Þeir Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliði Vals, og Ögmundur Kristinsson, aðalmarkmaður liðsins, hafa ekki spilað með liðinu til þessa á undirbúningstímabilinu. Þeir hafa glímt við meiðsli en Hólmar Örn er að nálgast endurkomu í liðið og Ögmundur er á góðri leið. Þetta segir Srdjan Tufegdzic, Túfa, þjálfari liðsins.
„Hólmar er búinn að ná sínum fyrstu 4-5 heilu fótboltaæfingum eftir rúmlega fjögurra mánaða meiðsli. Það er mjög jákvætt fyrir okkur. Hann er búinn að vera þvílíkt duglegur, lagt mjög mikið á sig og hefur æft aukalega til að geta komist aftur á völlinn. Núna er þessi vinna að skila sér til baka og er loksins að verða leikfær," segir Túfa.
„Ögmundur æfði í desember en fann fyrir smávægilegum meiðslum í nára sem hafa strítt honum. Við ákváðum að nýta janúar í að hann myndi vinna í þessu. Við kipptum honum að mestu út úr fótboltaæfingum, hann tók markmannsæfingar en spilaði ekki. Við vildum gefa honum tíma til að ná fullri heilsu. Það styttist í að hann komi inn að fullu og geti farið að spila."
Túfa segir að Hólmar og Aron Jóhannsson hafi í raun verið meiddir síðan í júní síðasta sumar. „Þeir voru að reyna hjálpa liðinu síðasta sumar, en þeir voru að spila í gengum meiðsli og lengdu endurkomutímann á móti. Báðir hafa lagt þvílíka vinnu á sig og Aron er kominn til baka."
Tryggvi Hrafn Haraldsson og Lúkas Logi Heimisson eru sömuleiðis í endurkomuferli og styttist í að þeir mæti aftur.
Reyndi ekki við Þorra
Þorri Mar Þórisson er á leið í Bestu deildina, er samkvæmt hemildum Fótbolta.net á leiðinni í Stjörnuna. Þorri var árið 2023 orðaður við Val en samdi það sumar við Öster þar sem Túfa var þjálfari. En Valur reyndi ekki að fá hann í sínar raðir í þessum glugga.
„Þorri er flottur strákur og góður leikmaður, en við erum ekki búnir í að vinna í því að fá hann," segir Túfa.
Athugasemdir