Lék sem vinstri bakvörður hjá Stjörnunni og er í því hlutverki hjá landdsliðinu. Hjá Vålerenga er hún meira í vinstri vængbakverði.
Vålerenga varð tvöfaldur meistari í Noregi á þessu tímabili, liðið vann bæði norska meistaratitilinn og norsku bikarkeppnina. Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir er leikmaður Vålerenga, hún var fengin til norska félagsins frá Stjörnunni eftir tímabilið 2023. Sædís ræddi um tímabilið við Fótbolta.net.
„Það eru tveir leikir eftir af tímabilinu, báðir í Meistaradeildinni. Heilt yfir er lítið hægt að kvarta yfir þessu tímabili hjá okkur. Meistaradeildarleikirnir sem við höfum spilað til þessa hafa gert mikið fyrir okkur, gott fyrir okkur að geta borið okkur saman við sterk lið í Evrópu og sjá hvar við stöndum gagnvart þeim.. Það var geggjuð upplifun að spila á völlunum hjá Bayern og Arsenal," segir Sædís.
Vålerenga á heimaleik gegn Arsenal í Osló í dag og svo verður lokaleikur tímabilsins gegn Juventus á Ítalíu eftir tæpa viku. Leikurinn gegn Arsenal hefst klukkan 17:45 að íslenskum tíma.
Ekki hægt að slaka á þó að staðan sé góð
Vålerenga vann deildina heima fyrir með talsverðum yfirburðum, liðið endaði 15 stigum fyrir ofan Brann og tapaði einungis átta stigum í 27 leikjum á tímabilinu.
„Við vorum frekar snemma búnar að tryggja okkur titilinn, en maður vill samt alltaf vinna hvern einasta leik og vinna sem með mestum yfirburðum. Þetta var frekar stabílt tímabil, lítið af upp og niður köflum, eins og liðin fyrir neðan okkur gengu í gegnum. Hin toppliðin voru að tapa stigum á móti liðum sem maður bjóst ekki við töpuðum stigum hjá þeim. Það var virkilega jákvætt að við náðum alltaf að halda í okkar og loksins er maður farinn að vinna eitthvað," segir Sædís og brosir.
„Ég var voða lítið að pæla í því að á meðan tímabilinu stóð að við værum nokkurn veginn öruggar með titilinn. Þegar þú ert hjá atvinnumannaliði þá ertu alltaf að hugsa um að sanna þig, við erum með ótrúlega sterkan hóp og maður þurfti að vinna fyrir sínu. Við vorum með það stóran hóp að það var hægt að velja leikmenn í liðið út frá andstæðingum. Þetta eru það margir leikir að það er mjög hæpið að ná að spila alla leikina, spilað mjög þétt og álagið er það mikið að það þarf að vera með sterkan hóp og rúlla á honum. Félagið var vel undirbúið fyrir það að við myndum komast svona langt í Meistaradeildinni. Það var því hægt að passa upp á álagið hjá leikmönnum."
Yfir litlu að kvarta
Sædís hefur verið í nokkuð stóru hlutverki á tímabilinu en meiðsli snemma tímabils settu smá strik í reikninginn og spilaði hún vegna þeirra ekki í tíu deildarleikjum í röð. Í 16 deildarleikjum skoraði Sædis fjögur mörk og lagði upp sex.
30.04.2024 16:26
Sædís ekki með í næsta landsliðsverkefni
„Ég missti svolítið af byrjuninni af tímabilið og það tók smá tíma að vinna mig aftur inn í byrjunarliðið, liðið var búið að spila ótrúlega vel og ég þurfti líka að passa að gera ekki of mikið svo ég myndi ekki meiðast aftur. Heilt yfir þá get ég ekki kvartað mikið, hef fengið mikið af mínútum og verið í flottu hlutverki miðað við fyrsta tímabil."
Geggjuð vika
Vikan áður en Sædís kom til móts við landsliðið á dögunum var nokkuð merkileg. Vålerenga gerði jafntefli á heimavelli gegn Bayern München og vann svo Rosenborg í úrslitaleik bikarsins.
„Þetta var geggjuð vika. Bikarinn í Noregi er mjög stór og það er mjög mikil áhersla á að gengið í bikarnum sé gott. Vikan fyrir bikarúrslitaleikinn er yfirleitt þannig að hún er pökkuð af bikardagskrá, en núna var þetta aðeins öðruvísi út af Bayern leiknum. Það var mjög sætt að jafna undir lokin gegn Bayern, mér fannst við eiga skilið að ná allavega jafntefli úr þeim leik. Mér finnst við hafa sýnt fína frammistöðu heilt yfir í riðlinum. Riðillinn er mjög sterkur og við höfum gefið öllum liðum leik. Ég held að síðustu tveir leikirnir í riðlinum verði mjög skemmtilegir."
Ferð ekki að spila einhvern annan bolta
Vålerenga var án stiga eftir þrjá leiki í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og orðið ljóst að liðið færi ekki upp úr riðlinum.
„Þó að við vorum með núll stig þá fannst mér við ekki hafa spilað illa, kannski skrítið að segja það en mér fannst ótrúlega ósanngjarnt að við hefðum ekki fengið stig eða jafnvel þrjú á móti Juventus heima. Arsenal úti og Bayern úti, það var smá brekka, en engu að síður þá höldum við í okkar gildi. Það er smá munur á því hvernig við setjum leikina upp, gerum ekki alveg eins á heimavelli og á útivelli. Þegar þú ert kominn í svona leiki ertu ekki að fara umturna öllu og fara spila einhvern annan bolta. Þú þarft að trúa því og treysta að allir viti að það er ástæða fyrir því að við erum komin þetta langt og þegar við spilum okkar leik, eins og gegn Bayern heima þegar við náðum að halda í boltann, þá er góður möguleiki."
Markmiðið einfalt, allir á sömu blaðsíðu og fundurinn stuttur
Sædís talar um góðan undirbúning félagsins fyrir tímabilið, það var undirbúið fyrir það að komast langt í Meistaradeildinni. Var krafa eða markmið að vinna tvennuna?
„Við tókum einhvern markmiðsfund í kringum æfingaleik gegn Hammarby í Svíþjóð. Mig minnir að það hafi verið í febrúar og ég held að sá fundur hafi tekið tæpar tíu mínútur. Þar var sagt að við myndum vinna deildina, að við kæmumst áfram í riðlakeppnina og að við ætluðum okkur bikarinn. Það tók ekki langan tíma, allir á sömu blaðsíðu frá upphafi."
„Mér finnst geggjað að það séu háleit markmið, þú vilt alltaf vinna og ferð í alla leiki til þess. Mér fannst mikilvægt að allir væru á sömu blaðsíðu, það var enginn að efast um þetta. Það var enginn sem sagði að markmiðið væri að fara í úrslit bikarsins, markmiðið var bara að taka bikarinn og það ekkert rætt frekar. Það að ætla sér að taka allt sem er í boði er kannski ekki staða sem ég hef verið í áður. Mér finnst það skemmtilegt."
Áttaði sig í fyrsta skiptið á hvað alvöru sumar væri
Sædís segir að norskan sé hægt og rólega að koma, stundum sé þó hlegið að henni þegar hún talar.
„Mér líður vel hérna og hlakka til að klára tímabilið. Mesta breytingin frá því á Íslandi er kannski að við erum að spila annað kerfi en ég var að spila hjá Stjörnunni og hlutverki því öðruvísi. En þetta er bara fótbolti, maður kemur sér inn í hlutina og það gekk hratt fyrir sig. Utan vallar þá er stærsti munurinn sá að maður áttaði sig í fyrsta skiptið í ár hvað það væri að fá alvöru sumar," segir Sædís og brosir.
Athugasemdir