fös 13. maí 2022 23:35
Victor Pálsson
Ten Hag: Erfið en frábær áskorun
Mynd: Getty Images

Erik ten Hag, stjóri Ajax, hefur tjáð sig eftir að hafa skrifað undir samning við Manchester United þar sem hann tekur við taumunum í sumar.


Ten Hag hefur lengi verið í viðræðum við enska félagið um að taka við en samkomulag náðist loksins nýlega og verður Hollendingurinn stjóri liðsins næsta vetur.

Það voru ýmis smáatriði sem þurfti að vinna í áður en pappírarnir voru undirritaðir en hvorki Ten Hag né Man Utd voru að flýta sér þegar kom að þessari ráðningu.

Ten Hag veit að áskorunin að koma Man Utd aftur á toppinn sé erfið en félagið hefur verið í töluverðri lægð undanfarin ár.

Það hafa margir reynt að koma Man Utd á beinu brautina eftir brotthvarf Sir Alex Ferguson en í raun hefur þeim öllum mistekist hingað til.

„Ég vildi búa til gott vinnuumhverfi til að byrja með svo það þurfti að sjá um öll smáatriði. Ég veit að Man Utd hefur þurft að ganga í gegnum mjög nákvæmt ferli. Þeir voru búnir að njósna og fara yfir öll gögn og talað við fólk sem hafði unnið með mér. Svo voru nokkrir fundir sem við sátum," sagði Ten Hag.

„Þeir voru ekki að flýta sér að neinu og heldur ekki ég. Þetta er erfið en frábær áskorun. Það er hægt að byggja eitthvað upp þarna og vinna titla. Manchester United er risastórt nafn í knattspyrnusögunni."

„Það er ekki að ástæðulausu að þeir kalla Old Trafford leikhús draumanna. Þetta er lið sem hefur mikið gildi í evrópskum fótbolta. Allir þekkja sögu félagsins."


Athugasemdir
banner
banner
banner