Breiðablik hefur fengið á sig sextán mörk í síðustu þremur leikjum en liðið fékk ljótan skell í forkeppni Evrópudeildarinnar í liðinni viku þegar það tapaði 6-2 í Bosníu í fyrri leik sínum gegn Zrinjski Mostar.
„Þetta var katastrófa, þetta var hrikalegt hjá Blikum svo við séum ekki að sykurhúða neitt," segir Elvar Geir í útvarpsþættinum Fótbolti.net.
Það hefur verið mikið leikjaálag hjá Breiðabliki og telur Magnús Þórir Matthíasson útilokað að Blikar nái að slá Mostar út eftir þennan skell í Bosníu.
„Þetta var örmögnun í fyrri hálfleiknum og vonleysið skein úr þeim. Þrátt fyrir að lenda 1-0 undir eftir tvær mínútur er þetta alveg fáránleg hegðun í fyrri hálfleiknum," segir Magnús og nefnir dæmi.
„Allir hafa aflífað Anton Ara undanfarið, hann hefur átt erfiða leiki. Hann er að reyna að spila eitthvað út og setur boltann beint á Mostar gæja sem vippar í slána og Damir setur boltann í horn. Upp úr því kemur mark, þetta var algjör katastrófa og punkturinn yfir i-ið var þetta rauða spjald sem Viktor Karl fær. Þetta var algjör viðbjóður."
Magnús gagnrýnir nálgun og liðsval Óskars Hrafns Þorvaldssonar.
„Nálgunin á þennan leik pirraði mann. Þetta var fyrsti keppnisleikur Mostar í einhvern tíma. Þessi nálgun að vera svona ofarlega á vellinum og vera pakkað saman. Ætla að spila úr öllu og vera étnir, lélegar snertingar á boltann. Það hefur stuðað menn að fá á sig fyrsta markið. Menn ná ekki að núlla sig eftir það og mörkin eftir það eru mjög ódýr. Það er ekki verið að sundurspila Blikana en þeir færa andstæðingnum tækifærin, bjóða þeim þau. Þeir eru þreyttir og allt það og hausinn fór alveg af," segir Magnús.
„Það var eins og öll tilfinning fyrir boltanum væri farin úr Blikum, eins og menn væru að spila með plastbolta. Þetta var svo skrítið," segir Benedikt Bóas Hinriksson.
„Ég elska Kidda Steindórs en hann er 33 ára og hefur ekki náð mikilli samfellu undanfarin ár á meðan Klæmint (Olsen) hefur að mínu mati verið mjög sprækur undanfarið. Kiddi hentar betur gegn liði sem bakkar alveg og hann fær að vera uppi í flæðinu. Það var alveg vitað að þetta yrði hörkubarátta," segir Magnús.
„Mér finnst líka sérstakt að hafa Andra Rafn Yeoman í vinstri bakverðinum þegar þú ert með hreinræktaðan vinstri bakvörð í Davíð Ingvars."
„Ég held að Breiðablik þurfi að taka 'móralskan' mjög fljótlega. Þeir þurfa að hressa eitthvað upp á þetta. Það er rosalega þungt yfir þeim. Ég vil fá agaða Blika í næsta einvígi."
Samt góðar líkur á að Breiðablik komist í riðlakeppni
Þrátt fyrir þessi úrslit þá eru góðar líkur á því að Blikar komi sér í riðlakeppni í Evrópu. Ef liðið dettur út gegn Zrinjski Mostar, eins og allt stefnir í, þá færist liðið niður í umspil fyrir riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Þar verður mótherjinn Struga frá Norður-Makedóníu eða Swift Hesperange frá Lúxemborg. Struga vann heimaleikinn 3-1.
Þess má geta að í umferðinni á undan vann Struga einvígi gegn Buducnost frá Svartfjallalandi samtals 5-3 (1-0 heima og 4-3 úti). Breiðablik vann Buducnost 5-0 á Kópavogsvelli í lok júní svo möguleiki Blika verður að teljast ansi góður.
Athugasemdir