mán 13. september 2021 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Heimir að taka við ÍBV? - „Verður með þá í tvö ár og tekur svo við landsliðinu"
Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson
Mynd: Getty Images
Heimir Hallgrímsson, fyrrum þjálfari íslenska landsliðsins, gæti tekið við ÍBV fyrir næsta tímabil en þetta var rætt í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í gær.

Þeir í Dr. Football ræddu það á dögunum að það væri möguleiki að Helgi Sigurðsson gæti hætt með ÍBV eftir þetta tímabil en hann tryggði liðið upp í Pepsi Max-deildina á dögunum.

Hjörvar Hafliðason, Kristján Óli Sigurðsson og Arnar Sveinn Geirsson ræddu möguleikana um að Heimir gæti tekið við Eyjamönnum og sagðist Kristján hafa heyrt af því að Heimir myndi mögulega taka við og stýra þeim í tvö ár áður en hann tæki aftur við íslenska landsliðinu.

„Þegar það er Eyjamaður á lausu sem heitir Heimir Hallgrimsson þá veit maður ekki hvað gerist. Helgi er búinn að ná frábærum árangri þarna og þetta byrjaði illa í sumar og fengu skell í Grindavík í fyrsta leik og menn sögðu bara að partíið væri búið en hann tróð sokk ofan í marga og þar á meðal mig."

„Þetta er annað skiptið sem hann fer upp úr þessari Lengjudeild og það er ekkert grín, þú þekkir það alveg. Sjáum aðra og stærri þjálfara sem hafa lent í basli þarna en þetta er svakalegt. Ef Heimir tekur við þá er krafan sú að það verði farnir tveir eða þrír túrar á botnfiskveiðar og ágóðinn verði keyptur í leikmenn."

„Það er sviðsmyndin sem ég heyri er að hann muni taka við liðinu og verði með það í tvö ár og mætir svo aftur í Laugardalinn og tekur við landsliðinu."

„Hann er búinn að safna vel í baukinn og cash er ekki vandamál lengur og hefur ekki verið það svosem.

„Ég veit ekki hvort hann geti gert við einhverjar fleiri tennur í þér en ef hann fær ekkert úti og er fyrirgos Eyjamaður að hann vilji koma með þann stóra aftur á Heimaey,"
sagði Kristján Óli um þessa mögulegu ráðningu.

Arnar Sveinn var þó ekki skemmt yfir þessu og sagði þetta vera svipað mikið rugl og þegar það var talað um að Guðlaugur Victor Pálsson væri á leið aftur í íslenska boltann.

„Nei, ég kaupi þetta ekki. Þetta er meira rugl en þegar var talað um að Guðlaugur Victor væri að koma hingað," sagði hann og lokaði þannig þessari umræðu.
Athugasemdir
banner
banner
banner