sun 13. október 2019 16:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: María tryggði Chelsea sigur - United burstaði Spurs
María Þórisdóttir.
María Þórisdóttir.
Mynd: Getty Images
Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Manchester United burstaði Tottenham.
Manchester United burstaði Tottenham.
Mynd: Getty Images
Það var leikið í úrvalsdeild kvenna í Englandi og var meðal annars Lundúnaslagur á milli Chelsea og Arsenal.

María Þórisdóttir var í byrjunarliði Chelsea og hún gerði sér lítið fyrir og skoraði sigurmarkið í leiknum. Arsenal leiddi 1-0 í hálfleik, en Chelsea jafnaði í upphafi síðari hálfleiks og var það enska landsliðskonan Bethany England sem skoraði.

Á 85. mínútu skoraði María síðan sigurmarkið. Hún skoraði með góðu skoti af rúmlega 20 metra færi.

María er dóttir Þóris Hergeirssonar sem þjálfar norska kvennalandsliðið í handbolta. Hún valdi að spila fyrir norska landsliðið enda hefur hún búið alla sína ævi í Noregi.

Chelsea er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 10 stig, Arsenal í öðru sæti með níu stig.

Rakel Hönnudóttir kom inn á sem varamaður á 78. mínútu þegar Reading vann 3-2 sigur á Everton. Reading er í sjöunda sæti með sex stig eftir þrjá leiki.

Liverpool gerði 1-1 jafntefli við Bristol City og Manchester United, sem eru nýliðar í deildinni, unnu 3-0 útisigur gegn Tottenham.

Man Utd er í fjórða sæti með sex stig og er Tottenham einnig með sex stig. Liverpool er í 11. sæti með eitt stig og Bristol City í sætinu fyrir ofan með tvö stig.
Athugasemdir
banner
banner