Manchester City er að ganga frá kaupum á brasilíska varnarmanninum Vitor Reis frá Palmeiras.
Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano segir að skiptin séu svo gott sem frágengin eftir að Man City náði samkomulagi við Palmeiras um kaupverð.
Heildarupphæðin nemur tæplega 40 milljónum evra og vill City fá leikmanninn strax til sín, án þess að senda hann aftur til Brasilíu á lánssamningi.
Reis er 19 ára gamall og spilar sem miðvörður að upplagi en getur einnig spilað í hægri bakverði. Hann á 9 leiki að baki fyrir U17 landslið Brasilíu og hefur aðeins spilað 22 keppnisleiki á ferli sínum hjá Palmeiras.
Man City hefur verið í vandræðum með varnarleikinn hjá sér á tímabilinu og sagði Pep Guardiola í viðtali í gær að það væri forgangsatriði að laga varnarlínuna í janúarglugganum.
Athugasemdir