sun 14. febrúar 2021 15:39
Ívan Guðjón Baldursson
Hasenhuttl og Armstrong skilja ekki vítaspyrnudóminn
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ralph Hasenhüttl, stjóri Southampton, og Stuart Armstrong, miðjumaður, eru ósáttir eftir tap á heimavelli gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Southampton var 1-0 yfir þegar Úlfarnir fengu dæmda vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik eftir að boltinn fór í hendi Ryan Bertrand innan vítateigs.

Bertrand gat lítið gert til að færa hendina frá og finnst heimamönnum ósanngjarnt að vítaspyrna hafi verið dæmd.

„Þetta er mjög svekkjandi því við vorum góðir í fyrri hálfleik en ég get bara ekki skilið vítaspyrnudóminn. Ég skil ekki hvernig varnarmaðurinn á að geta komið í veg fyrir að þetta gerist, sóknarmaðurinn stendur einum meter frá honum og þrumar knettinum í höndina hans," sagði Hasenhüttl.

„Mótherjarnir voru ekki búnir að fá færi fram að þessari stundu og breytti þessi ákvörðun leiknum algjörlega. Strákarnir voru sjokkeraðir af þessari ákvörðun og hleyptu andstæðingunum inn í leikinn.

„Ég er búinn að sjá endursýninguna tvisvar eða þrisvar en ég skil samt ekki hvernig hann getur gefið vítaspyrnu."


Armstrong gerði vel í fyrri hálfleik þar sem hann átti frábæra stoðsendingu á Danny Ings sem kom Southampton yfir. Hann tók í svipaða strengi og stjórinn sinn.

„Ég skil ekki vítaspyrnudóminn. Hann er ekki einu sinni með hendina á skrítnum stað, hún er í mjög eðlilegri stöðu. Við erum mjög svekktir með úrslitin og dómaraákvarðanirnar. Okkur líður eins og við séum að lenda í þessu í hverri viku."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner