Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 14. júní 2021 23:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Vi er røde Vi er hvide, áfram Danmörk!
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liðið stóð saman á ótrúlega erfiðri stundu og sýndi það hvernig á að vera lið.
Liðið stóð saman á ótrúlega erfiðri stundu og sýndi það hvernig á að vera lið.
Mynd: EPA
Simon Kjær hughreystir hér eiginkonu Christian Eriksen. Magnaður leiðtogi og mögnuð fyrirmynd.
Simon Kjær hughreystir hér eiginkonu Christian Eriksen. Magnaður leiðtogi og mögnuð fyrirmynd.
Mynd: EPA
Þetta er ótrúlegt lið.
Þetta er ótrúlegt lið.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ég hef aldrei haldið með Danmörku í neinu. Ég veit ekki alveg af hverju. Ég hef nokkrum sinnum farið til Danmerkur og alltaf skemmt mér vel; ég kann vel við landið. Sem Íslendingi hefur mér hins vegar verið kennt það að Daninn sé stóri og vondi frændinn.

Við höfum öll þurft að læra tungumálið þeirra - með misjöfnum árangri - en flestir Danir kunna ek kert í okkar máli; stóri frændinn.

Áður en þetta Evrópumót byrjaði skrifaði ég grein hér á Fótbolta.net þar sem ég stakk upp á liðum fyrir hinn almenna fótboltaaðdáenda til að halda með á mótinu. Sjálfur var ég ekki viss um það með hverjum ég ætti að halda. Skotar eru æðislegir, Finnar sömuleiðis, mér fannst þýska liðið skemmtilegt fyrir nokkrum árum og maður hefur alltaf tengingu við England út af ensku úrvalsdeildinni. Danmörk var ekki inn í myndinni hjá mér þótt ég væri hrifinn af þeirra liði og spilamennsku.

Þegar ég horfði á Danmörk - Finnland á laugardag, þá hugsaði ég með mér: ‘Þessir Finnar eru geggjaðir. Þeir spila þétta vörn og eru ótrúlega pirrandi fyrir Danina. Þetta er í raun bara eins og Ísland sé á þessu móti’.

Ég hélt með Finnlandi í þessum leik og ákvað í raun bara þarna í fyrri hálfleiknum að þeir væru bara mitt lið á mótinu.

Svo breyttist það undir lok fyrri hálfleiks. Finnland er núna lið númer tvö.

Christian Eriksen, leikmaður Danmerkur, hneig niður. Það greip um sig ótti á meðal leikmanna, liðsfélaga hans, allra á vellinum og áhorfenda heima í stofu. Þetta leit strax gríðarlega alvarlega út og þegar það sást að læknar hófu hjartahnoð þá fór maður að óttast það versta. Ég var að hefja kvöldvakt við fótboltaskrif. Ég hef tekið hundruðir slíkar kvöldvaktir, en þessi var sú langerfiðasta. Ég hef aldrei hitt Christian Eriksen eða talað við hann. Ég hef bara séð hann spila fótbolta, en samt var maður heima með tárin í augunum.

Ég var bara heima að fylgjast með. Ég get ekki ímyndað mér hvernig fjölskyldu Eriksen leið, hvernig liðsfélögum hans leið og dönsku þjóðinni leið.

Skjót viðbrögð leikmanna, dómarans, lækna og annarra sjúkrastarfsmanna björguðu lífi hans. Danska liðið - liðsfélagar Eriksen - var ótrúlegt í stöðunni sem kom upp. Þeir komu fyrstir að honum og fyrirliðinn Simon Kjær passaði upp á að hann myndi ekki gleypa tungu sína. Hann kom honum einnig í hliðarlegu. Liðið bjó til mennskan skjöld í kringum Eriksen svo myndavélar myndu ekki ná myndum af liðsfélaga þeirra. Þeir hughreystu eiginkonu hans sem kom hlaupandi inn á völlinn. Þeir sýndu það hvernig á að vera lið - og miklu meira en það - á einu erfiðasta augnabliki í lífi þeirra allra, ef ekki því erfiðasta. Þú verður alltaf að berjast fyrir liðsfélaga þinn.

Sem betur fer fór allt vel á endanum og Eriksen er á lífi, sem er fyrir öllu.

Ég mun hér eftir halda með Danmörku á þessu móti og ég er vonandi ekki einn í því. Danmörk er lið mótsins og þeir Simon Kjær og Kasper Schmeichel, leiðtogar liðsins, eru leikmenn mótsins. Það hvernig liðið stóð saman var magnað að sjá og hér eftir munu þeir spila fyrir Eriksen. Það var til háborinnar fyrirmyndar að sjá.

Þrátt fyrir tap gegn Finnlandi eiga þeir enn möguleika á því að komast áfram. Þeir mæta Belgíu á þriðjudag og svo Rússlandi í lokaleik sínum í riðlinum. Þeir þurfa helst fjögur stig í þessum tveimur leikjum.

Vi er røde Vi er hvide, áfram Danmörk!
Athugasemdir
banner
banner
banner