Arne Slot, stjóri Liverpool, var létt í leikslok eftir að hafa unnið nauman 1-0 sigur á nýliðum Burnley á Turf Moor.
Liverpool var með mikla yfirburði og stafaði í raun lítil hætta af heimamönnum.
Þeir lögðu rútunni og gekk það fullkomlega upp eða fram að einstaklingsmistökum Hannibal Mejbri sem handlék boltann í teignum seint í uppbótartíma og var það Mohamed Salah sem skoraði úr spyrnunni til að tryggja Liverpool sigurinn.
„Ég verð að hrósa Burnley fyrir það hvernig þeir vörðust. Það var mjög erfitt fyrir okkur að finna opnanir og í nokkur skipti vorum við nálægt því. Ef við hefðum skorað fyrr þá hefði leikurinn mögulega opnast betur, en þar sem við gerðum það ekki þá héldu þeir í sama leikskipulag. Við þurftum að bíða fram að lokakafla síðari hálfleiks til þess að fá það sem við óskuðum okkur.“
„Það er alltaf möguleiki á því að þetta detti með þér, en það var erfitt því þeir voru með alla leikmenn á bakvið boltann. Við þurfum smá heppni eða töfra til. Töfrarnir voru kannski ekki til staðar, en heppnin var það svo sannarlega. Maður vonar og reynir að gera þetta erfiðara fyrir Burnley, en þeir voru ótrúlega sterkir,“ sagði Slot.
Hann var spurður út í skiptinguna í fyrri hálfleik er hann ákvað að taka Milos Kerkez af velli, sem var á gulu spjaldi, en Andy Robertson kom inn í hans stað.
„Það var út af því að hann fékk gult spjald. Ég held að stuðningsmennirnir á vellinum hafi haldið að þeir ættu möguleika á að vinna ef við hefðum fengið seinna gula spjaldið.“
„Það er nú einu sinni þannig með Milos að ég get aldrei verið 100 prósent viss um að hann brjóti ekki aftur af sér og síðan eru stuðningsmennirnir að setja pressu á dómarateymið. Mér fannst þetta svolítið vera þannig að eini möguleikinn á að við töpuðum leiknum væri ef við hefðum misst mann af velli,“ sagði Slot.
Athugasemdir