

'Það voru allir leikmenn að stíga upp og leikmenn að spila á mjög háu 'leveli' sem var mjög gott að sjá'
„Ég er ekki kominn með nákvæma dagsetningu á endurkomu, er búinn að vera meiddur í tvær vikur. Þetta er búið að þróast mjög vel og ég stefni á að vera kominn aftur af stað fyrir næstu landsleiki," segir landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson við Fótbolta.net.
Hann var í hópnum fyrir leikina gegn Aserbaísjan og Frakklandi en meiddist í síðasta leik með Real Sociedad fyrir landsleikina.
Hann var í hópnum fyrir leikina gegn Aserbaísjan og Frakklandi en meiddist í síðasta leik með Real Sociedad fyrir landsleikina.
„Það voru tvær tilfinningar, maður var auðvitað svekktur að geta ekki fengið að vera með í fyrstu leikjunum í undankeppninni og hjálpað með því að leiða liðið áfram. En ég var líka mjög stoltur af strákunum hvernig þeir stóðu sig í leikjunum og að sjá þróunina á liðinu. Það voru allir leikmenn að stíga upp og leikmenn að spila á mjög háu 'leveli' sem var mjög gott að sjá," segir Orri.
Orri var spurður út í leikinn gegn Frökkum. Fyrir leik, hafðir þú trú á þetta góðri frammistöðu?
„Já, ég hafði það. Ég fór til Parísar og var með strákunum á leikdegi. Ég fann á mönnum í morgunmatnum að menn voru vel gíraðir og höfðu fulla trú á þessu. Það skilgreinir líka okkur sem lið, við erum menn sem pælum ekkert of mikið í hlutunum, keyrum bara á þetta. Ef það svo mistekst þá bara mistekst það, en við erum alltaf að fara reyna. Strákarnir sýndu að það er ekkert annað sem fór í gegnum hausinn."
Hvernig finnst þér þróunin undir Arnari Gunnlaugssyni hafa verið?
„Þegar nýr þjálfari kemur inn þá taka hlutirnir smá tíma í byrjun, menn þurfa að læra fullt nýtt og hann þarf líka að læra á okkur. Maður sá skref fram á við í sumarglugganum á móti Skotlandi, menn voru aðeins byrjaðir að klukka hvað var að gerast. Mér finnst við svo hafa bætt stöðugleikann í vörninni og haldið á sama tíma krafti fram á við. Við vorum skarpir á síðasta þriðjung á móti Aserbaísjan og skorum auðvitað tvö mörk á móti Frakklandi sem segir sitt."
Þú sem framherji, hvað finnst þér um þetta mark sem er dæmt af Íslandi undir lokin gegn Frakklandi?
„Sem Íslendingur og fyrirliði landsliðsins var ég brjálaður, ég get ekki skilið af hverju hann dæmir á þetta, en það er auðvitað smá tog. Það var ekki eins og (Ibrahima) Konate hefði verið fyrsti maðurinn í dómarann. Hann fattaði nú held ég alveg að hann hefði getað gert betur held ég."
Orri Steinn skoraði í fyrstu tveimur leikjunum undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar sem hafði á undan því gert framherjann að fyrirliða landsliðsins. Orri missti svo af landsleikjunum í sumar og eins og fyrr segir leikjunum í nýliðnu landsleikjahléi. Er farið að kitla að fara í treyjuna aftur?
„Það var löngu farið að kitla áður en ég meiddist núna síðast. Það var rosalega að svekkjandi að meiðast núna. Ég held að ég sé búinn með minn skammt af meiðslum í bili, ég vonast til að geta verið 100% í októberverkefninu og verið með strákunum í öllum verkefnunum sem eru framundan. Það er eitt það skemmtilegasta sem maður gerir að vera með þessum strákum og vera fulltrúi Íslands. Ég hlakka mjög mikið til þess," segir Orri.
Næsti landsleikjagluggi
föstudagur 10. október
Landslið karla - HM 2026
18:45 Frakkland-Aserbaísjan (Parc des Princes)
18:45 Ísland-Úkraína (Laugardalsvöllur)
mánudagur 13. október
Landslið karla - HM 2026
18:45 Ísland-Frakkland (Laugardalsvöllur)
18:45 Úkraína-Aserbaísjan (Tarczynski Arena Wroclaw)
Landslið karla - HM 2026
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Frakkland | 2 | 2 | 0 | 0 | 4 - 1 | +3 | 6 |
2. Ísland | 2 | 1 | 0 | 1 | 6 - 2 | +4 | 3 |
3. Úkraína | 2 | 0 | 1 | 1 | 1 - 3 | -2 | 1 |
4. Aserbaísjan | 2 | 0 | 1 | 1 | 1 - 6 | -5 | 1 |
Athugasemdir