Daníel Tristan Guðjohnsen skoraði bæði mörk Malmö sem gerði 2-2 jafntefli við Elfsborg í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í dag og er hann nú kominn með fjögur deildarmörk á tímabilinu.
Framherjinn er að elska lífið akkúrat núna. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik á dögunum og þá staðið sig frábærlega með Malmö á leiktíðinni.
Daníel skoraði úr vítaspyrnu fyrir Malmö á 8. mínútu og bætti við öðru eftir rúman hálftíma.
Arnór Sigurðsson meiddist rétt fyrir annað markið og þurfti að fara af velli.
Í síðari hálfleiknum kom Elfsborg til baka með tveimur mörkum á sex mínútum og þar við sat.
Júlíus Magnússon byrjaði hjá Elfsborg og þá kom Ari Sigurpálsson inn af bekknum. Malmö er í 4. sæti með 39 stig en Elfsborg í 7. sæti með 37 stig.
Mikael Neville Anderson lagði upp mark í 3-3 jafntefli Djurgården gegn Hammarby í grannaslag.
Hann lagði upp annað mark Djurgården í leiknum sem er í 8. sæti með 35 stig.
Nóel Atli Arnórsson kom inn af bekknum í lokin er Álaborg vann öruggan 4-0 sigur á Middelfart í dönsku B-deildinni. Álaborg er í 8. sæti með 11 stig.
Elías Rafn Ólafsson stóð á milli stanganna hjá Midtjylland sem tapaði fyrir Nordsjælland, 1-0, í dönsku úrvalsdeildinni. Midtjylland er í 3. sæti með 15 stig, tveimur stigum frá toppnum.
Stefán Ingi Sigurðarson byrjaði hjá Sandefjord sem tapaði fyrir Sarpsborg, 2-1, í norsku úrvalsdeildinni.
Framherjinn hefur verið iðinn við kolann á tímabilinu og var um tíma markahæstur, en hann hefur ekki skorað í síðustu tveimur leikjum og er nú fimm mörkum frá markahæsta manni deildarinnar.
Sveinn Aron Guðjohnsen var á bekknum hjá Sarpsborg en kom ekkert við sögu, Sandefjord er í 8. sæti með 28 stig en Sarpsborg í 10. sæti með 28 stig.
2? Gudjohnsen igen!pic.twitter.com/gX8OfBrOfJ
— Malmö FF (@Malmo_FF) September 14, 2025
Athugasemdir