Bayern vill 100 milljónir fyrir Olise - Chelsea reynir að fá Guehi og Maignan frítt - Konate ætlar til Real Madrid
   sun 14. september 2025 18:29
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Víkingur skoraði sjö í Frostaskjóli
Valdimar setti þrennu.
Valdimar setti þrennu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nikolaj Hansen komst einnig á blað.
Nikolaj Hansen komst einnig á blað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel skoraði og Gylfa var skipt út í hálfleik.
Daníel skoraði og Gylfa var skipt út í hálfleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR 0 - 6 Víkingur R.
0-1 Óskar Borgþórsson ('5)
0-2 Valdimar Þór Ingimundarson ('24)
0-3 Valdimar Þór Ingimundarson ('40)
0-4 Nikolaj Andreas Hansen ('45+3)
0-5 Daníel Hafsteinsson ('49)
0-6 Valdimar Þór Ingimundarson ('67)

Lestu um leikinn: KR 0 -  7 Víkingur R.

KR tók á móti Víkingi R. í Frostaskjólinu í dag og úr varð mikil markaveisla. Óskar Borgþórsson tók forystuna snemma leiks eftir vel útfærða skyndisókn þar sem Stígur Diljan Þórðarson gerði mjög vel í undirbúningnum.

Varnarleikur KR var ekki upp á marga fiska í þessum leik og sluppu Víkingar nokkrum sinnum í gegn áður en þeir tvöfölduðu forystuna. Valdimar Þór Ingimundarson var aleinn og óvaldaður í vítateig KR, hann fékk boltann og skoraði mark alveg óáreittur.

Galdur Guðmundsson sem fékk besta færi KR í fyrri hálfleik meiddist og var skipt af velli eftir um hálftímaleik. KR-ingar reyndu að minnka muninn en tókst ekki. Þess í stað refsaði Valdimar Þór þeim aftur með öðru marki. Í þetta sinn átti Helgi Guðjónsson góða fyrirgjöf á Valdimar sem skoraði af stuttu færi en það var full auðvelt fyrir Valdimar að hrista varnarmann KR af sér.

Valdimar komst í gegn og skoraði aftur en var réttilega flaggaður rangstæður, áður en Nikolaj Hansen skoraði eftir aukaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Gunnar Vatnhamar skallaði boltann fyrir fætur Nikolaj sem skoraði af stuttu færi. Staðan 0-4 fyrir Víking í hálfleik.

KR hélt boltanum 69% í fyrri hálfleik en var 0-4 undir í leikhlé. Einstaklega áhugaverð tölfræði.

Bæði lið gerðu tvöfalda skiptingu í hálfleik og héldu Víkingar áfram að skora. Daníel Hafsteinsson skoraði draumamark með bylmingsskoti langt utan vítateigs og fullkomnaði Valdimar Þór svo þrennuna sína á 67. mínútu.

Staðan var þá orðin 0-6 fyrir Víking áður en liðið fékk sína fyrstu hornspyrnu í leiknum.

Oliver Ekroth skoraði sjöunda og síðasta mark leiksins á 87. mínútu til að ljúka við niðurlæginguna. KR endaði á að tapa með sjö marka mun á heimavelli, sem er stærsta tap í sögu liðsins í deildarkeppni.

KR tapaði 7-0 gegn FH í efstu deild árið 2003.

Þetta er dýrmætur sigur fyrir Víkinga sem fara á topp Bestu deildarinnar, tveimur stigum fyrir ofan Val í titilbaráttunni. Valsarar eiga þó leik til góða gegn Stjörnunni í kvöld.

Víkingur fer yfir Val á markatölu með þessum stórsigri. Víkingar eiga 20 mörk í plús á meðan Valur er með 19 mörk í plús.

KR er þremur stigum fyrir ofan fallsæti.
Athugasemdir