Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 14. nóvember 2012 07:00
Birgir Freyr Ragnarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Versti díll sögunnar í kjölfarið á þeim besta?
Birgir Freyr Ragnarsson
Birgir Freyr Ragnarsson
Fernando Torres mættur til Chelsea.
Fernando Torres mættur til Chelsea.
Mynd: Getty Images
Kenny Dalglish býður Carroll velkominn.
Kenny Dalglish býður Carroll velkominn.
Mynd: Vefur Liverpool
Í janúar árið 2011 var Fernando Torres seldur frá Liverpool til Chelsea fyrir 50 milljónir punda, félagsskiptin komu Torres í sögubækurnar fyrir að vera dýrasti spænski leikmaður sögunnar og einnig dýrasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.

Torres hafði þá spilað á Anfield frá 2007, hann varð fljótasti leikmaðurinn í sögu Liverpool til þess að skora 50 deildarmörk og á metið yfir flest mörk skoruð af erlendum leikmanni í ensku deildinni á fyrsta tímabili, 24 mörk, einu meira en Sergio Aguero og Ruud Van Nistelrooy. Í augum Roman Abramovich eru 50 miljónir punda sama og klink fyrir leikmann með þessa tölfræði.

Liverpool hefur á síðustu árum lagt það í vana að gera misjöfn kaup í félagsskiptagluggunum. Sem dæmi má taka Stewart Downing (20 milljónir punda) sem hefur spilað 46 leiki fyrir Liverpool, skorað 4 mörk og lagt upp 3 mörk (þar af ekkert mark og engin stoðsending í ensku deildinni). Síðasta mark Downing í ensku deildinni var fyrir Aston Villa á móti Liverpool árið 2010.

Robbie Keane er annað dæmi, keyptur frá Tottenham sumarið 2008 á 19 milljónir punda og seldur til Tottenham í janúar 2009 fyrir 12 milljónir punda. Í augum viðskiptamannsins eru þetta auðveldustu 7 milljónir punda sem Tottenham mun nokkurn tímann afla sér.

Í félagsskiptaglugganum, janúar 2011 var síðan Andy Carroll keyptur frá Newcastle fyrir 35 milljónir punda. Sem gerði hann að dýrasta leikmanni í sögu Liverpool og einnig dýrasta breska leikmanni sögunnar. Andy Carroll hafði þá skorað 19 mörk fyrir Newcastle í öllum keppnum árið 2010 og þar af 17 mörk í ensku úrvalsdeildinni. Til samanburðar má nefna að Manchester City borgaði 32,5 milljónir punda fyrir Robinho á sínum tíma og einnig 35 milljónir punda fyrir Sergio Aguero.

Andy Carroll spilaði 35 leiki fyrir Liverpool og skoraði 11 mörk í öllum keppnum, þar af 6 í ensku deildinni áður en hann var lánaður til West Ham haustið 2012. Fernando Torres hefur spilað 61 leik fyrir Chelsea hingað til og skorað 19 mörk í öllum keppnum, þar af 11 mörk í ensku deildinni.

Til að bera þessi kaup saman þá hefur hvert mark frá Andy Carroll kostað Liverpool um 3,2 milljónir punda (fyrir utan launakostnað). Hvert mark frá Torres hefur kostað Chelsea rúmlega 2,6 milljónir punda (fyrir utan launakostnað) en hann getur að sjálfsögðu ennþá lagað þá tölfræði.

Niðurstaðan er sú að í janúar 2011 gerði Liverpool einn besta díl í sögu ensku deildarinnar en í stað þess að bíða átekta var gerður einn versti díll sögunnar strax í kjölfarið.

Hvaða félagaskipti myndir þú gera fyrir 50 milljónir punda frá frúnni í Hamborg í dag?

Heimildir:Transferleague.co.uk, Soccernet, Telegraph, Wikipedia, Soccerbase, Sonarmagazine, The Sun.
Athugasemdir
banner
banner
banner