Tyrkneska stórveldið Fenerbahce er búið að festa kaup á franska miðjumanninum Mattéo Guendouzi sem kemur til félagsins úr röðum Lazio.
Guendouzi, sem var meðal annars orðaður við Sunderland í vetur, skrifar undir fjögurra og hálfs árs samning við Fenerbahce.
20.11.2025 22:00
Guendouzi til Sunderland?
Guendouzi er 26 ára gamall og hefur spilað 14 A-landsleiki fyrir Frakkland. Hann gerði garðinn fyrst frægan með Arsenal og hefur verið mikilvægur hlekkur í byrjunarliðunum hjá Marseille og Lazio á undanförnum árum.
Fenerbahce borgar um 28 milljónir evra til að festa kaup á þessum sterka miðjumanni. Lazio er þá búið að selja byrjunarliðsmennina Taty Castellanos og Guendouzi fyrir tæplega 60 milljónir evra í janúarglugganum.
Kenneth Taylor og Petar Ratkov eru komnir til félagsins í þeirra stað, þó fyrir talsvert lægri upphæðir.
Hjá Fenerbahce mun Guendouzi leika undir stjórn Domenico Tedesco. Meðal liðsfélaga hans hjá nýju félagi má nefna brasilíska markvörðinn Ederson Moraes, kólumbíska framherjann Jhon Durán og spænska sóknartengiliðinn Marco Asensio. Auk þeirra má einnig finna Fred, Milan Skriniar, Edson Álvarez, Nélson Semedo og fleiri í öflugum leikmannahópi.
Athugasemdir





