sun 15. maí 2022 09:40
Ívan Guðjón Baldursson
Bandaríkin: Gunnhildur Yrsa og Óttar Magnús á skotskónum
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Houston Dynamo
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það var nóg um að vera í bandaríska fótboltanum í gærkvöldi og nótt og komu nokkrir Íslendingar við sögu.


Í kvennaboltanum skoraði fyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fyrsta mark leiksins í 2-2 jafntefli Orlando Pride gegn Kansas City Current.

Gestunum frá Kansas tókst að snúa stöðunni við á lokakaflanum þar sem Elyse Bennett skoraði fyrst og lagði svo upp það sem virtist vera sigurmark í uppbótartíma.

Það reyndist þó ekki sigurmarkið því Toni Pressley átti eftir að jafna fyrir Orlando með marki af vítapunktinum.

Orlando er með fjögur stig eftir þrjár umferðir en þetta var fyrsta stig Kansas.

Orlando Pride 2 - 2 Kansas City Current
1-0 Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir ('51)
1-1 E. Bennett ('78)
1-2 K. Hamilton ('91)
2-2 T. Pressley ('96, víti)

Í karlaboltanum var Þorleifur Úlfarsson í byrjunarliði Houston Dynamo sem vann frábæran sigur á Nashville SC í gærkvöldi þrátt fyrir að vera leikmanni færri stærsta hluta leiksins.

Heimamenn í Houston tóku forystuna snemma leiks og misstu svo varnarmanninn Adam Lundqvist af velli með beint rautt spjald. Í kjölfarið af þeim dómi var skipt Þorleifi út fyrir annan varnarmann, Sam Junqua.

Liðsfélagar Þorleifs héldu ótrauðir áfram og tvöfölduðu forystuna snemma í síðari hálfleik með marki úr vítaspyrnu. Strákarnir í Houston gerðu mjög vel að halda forystunni út leikinn og tókst með sigrinum að jafna Nashville á stigum í deildinni. Liðin eru bæði um miðja deild með 15 stig eftir 11 umferðir.

CF Montreal virðist vera besta liðið í austurhluta MLS deildarinnar og vann sinn þriðja deildarleik í röð í nótt. Montreal heimsótti þá Charlotte til Norður-Karólínu og vann 0-2.

Róbert Orri Þorkelsson var ónotaður varamaður hjá Montreal en Victor Wanyama er fyrirliði og kom Kei Kamara inn af bekknum í leikhlé og lagði upp annað markið í sigrinum.

Montreal deilir toppsæti austurhluta MLS deildarinnar með Orlando City og Philadelphia Union, með 20 stig eftir 11 umferðir.

Houston Dynamo 2 - 0 Nashville SC
1-0 A. Carrasquilla ('16)
2-0 D. Quintero ('53, víti)
Rautt spjald: A. Lundqvist, Houston ('35)

Charlotte 0 - 2 CF Montreal
0-1 D. Mihailovic ('45)
0-2 A. Johnston ('67)

Að lokum var Óttar Magnús Karlsson á sínum stað í byrjunarliði Oakland Roots sem leikur í næstefstu deild og gerði jafntefli við Las Vegas Lights í nótt.

Það tók Óttar ekki nema þrjár mínútur að skora fyrsta markið en heimamenn voru snöggir að jafna.

Leikurinn var nokkuð bragðdaufur þar sem Óttar og félagar fengu fleiri færi en inn vildi boltinn ekki og urðu lokatölur 1-1. 

Oakland hefur farið brösulega af stað og er aðeins komið með einn sigur eftir ellefu umferðir. Liðið er þó komið með níu stig og er ekki nema fimm stigum frá sæti í úrslitakeppninni.

Las Vegas Lights 1 - 1 Oakland Roots
0-1 Óttar Magnús Karlsson ('3)
1-1 A. Lara ('24)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner