Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
   lau 15. júní 2013 17:20
Sindri Snær Jensson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Pepsi Mörkin - Hvernig standa þeir sig í klæðaburði?
Sindri Snær Jensson
Sindri Snær Jensson
watermark
Mynd: Pepsi-mörkin
Greinin hér að neðan er fengin af vefsíðunni sindrijensson.com og birt með leyfi höfundar. Sindri Snær Jensson er höfundurinn en hann er sérstakur tískuráðgjafi Fótbolta.net.

Ef þú fylgist á einhvern hátt með knattspyrnu á Íslandi hefurðu sennilega séð þátt af Pepsi Mörkunum, sjónvarpsþætti sem sýndur er á Stöð 2 Sport eftir hverja umferð í Pepsi deild karla. Þar fara sérfræðingar í knattspyrnufræðum yfir það helsta sem gerist í boltanum og heldur Hörður Magnússon þétt um stjórnartaumana. Með Herði eru ávallt tveir álitsgjafar og deila þeir Hjörvar Hafliðason, Tómas Ingi Tómasson og Reynir Leósson þessum tveimur sætum.

Þar sem ég hef ávallt sterkar skoðanir á klæðnaði fólks þá spái ég ósjálfrátt mikið í því hverju strákarnir klæðast í útsendingu. Ég er þó ekki sá eini sem velti þessu fyrir mér því margir virðast hafa skoðanir á útliti stjórnenda og láta þær í ljós á samskiptamiðlinum Twitter. Undanfarið hafa t.d. margir spáð í “nýrri” hárgreiðslu Hödda Magg og hafa verið skiptar skoðanir á henni.

Þeir sem þekkja mig vita að ég elska fótbolta og auðvitað er hann alltaf í fyrsta sæti þó mér finnist gaman að fjalla um klæðaburð fólks. Ég er þeirrar skoðunar að sjónvarpsmenn eigi að vera leiðandi í klæðaburði og í vikulegum þætti sem þessum þurfa stjórnendur að vera duglegir að fylgjast með tískunni og endurnýja fatavalið.

Þar sem strákarnir eru duglegir að gagnrýna í þáttunum ætla ég aðeins að fá að gagnrýna þá bæði jákvætt og neikvætt fyrir klæðaburð og almennt útlit. Það var nokkuð erfitt að finna myndir af þeim félögum og fór ég þá leiðina að taka skjáskot af þáttunum og myndgæðin því ekki upp á tíu.

Hörður Magnússon:

Höddi er í hlutverki stjórnanda í þáttunum og virkar vel sem slíkur. Minnir mig alltaf á karakterinn Will McAvoy úr þáttunum The Newsroom, sá er gagnrýninn fréttamaður (anchorman). Varðandi klæðaburð Harðar þá fer hann yfirleitt frekar hefðbundnar leiðir, sem þarf ekki endilega að vera slæmt. Þó myndi ég vilja sjá hann taka aðeins meiri áhættur í klæðaburði. Nýlega var Hörður til dæmis með glæsilegt blátt doppótt bindi í fullkominni breidd, í því looki hefði ég þó viljað sjá Hödda brydda upp á vasaklút enda liturinn á jakkanum frekar flatur. Sum bindin sem Hörður notar eru í breiðari kantinum og sama má segja um boðungana á jökkunum hans. Grár jakki sem Hörður notar reglulega er að mínu mati með talsvert of breiða boðunga, nútímalegri snið hafa mjórri boðunga. Svo held ég að Hörður mætti skoða það að versla minni stærð af jökkum eða snið sem passar betur á axlirnar. Gæti líka verið að herðapúðarnir séu í stærra lagi hjá honum en það virkar eins og sumir jakkarnir séu aðeins of stórir á kallinn. Höddi fær þó prik fyrir skyrtuval enda alltaf með stífa kraga á skyrtunum og hæfilega gleiða fyrir bindin sem hann notar.Jákvætt: Klassískur. Góðar Skyrtur. Gott hár.

Neikvætt: Breiðir Boðungar á Jökkum. Mætti taka meiri áhættur.

Hjörvar Hafliðason:

Hjörvar er tvímælalaust sá í þáttunum sem spáir mest í fatnaði og samsetningum á jakka/skyrtu/bindi/vasaklút. Hjörvar er talsvert mikið að vinna með ljósa liti og greinilegt að hann er hrifinn af þeim, það virkar því Hjörvar er búinn að vinna í nokkuð solid base-tani. Það er gaman að sjá samsetningarnar sem Hjörvar býður upp á enda er hann óhræddur við liti og notar til að mynda græn og ljósblá bindi og bleikar skyrtur. Nýlega splæsti Hjörvar í glæsilega bindisnælu sem ég var ánægður að sjá í notkun. Það er þó greinilegt að Hjörvar hefur lagt aðeins af í líkamsþyngd og ummáli því sumar skyrturnar eru aðeins of stórar í hálsinn, sást það vel í síðasta þætti þar sem köflótt skyrtan var talsvert víð. Hugmyndin að þeirri samsetningu var góð en virkaði 90% því kraginn var einnig aðeins of linur og bar bindi ekki nægilega vel. Í sjónvarpi þurfa kragar að vera vel pressaðir og stífir. Hjörvar er einnig alltaf vel rakaður og nýklipptur sem skiptir miklu máli í þessum bransa, mjög clean look á Hjöbbanum. Yfir það heila myndi ég hiklaust velja Hjörvar best klæddan í þáttunum.Jákvætt: Góðar samsetningar. Vel til hafður um andlit og höfuð. Óhræddur. Nýjungagjarn.

Neikvætt: Skyrtur víðar í hálsinn.

Tómas Ingi Tómasson:

Tómas Ingi er í raun og veru algjör jóker í þáttunum bæði hvað varðar klæðaburð og frammistöðu sem sérfræðingur. Tommi starfaði eins og landsþekkt er sem verslunarstjóri í Sævari Karli og sinnti því starfi að mínu viti vel. Eftir að hafa starfað í tískubransanum lengi skil ég ekki alveg hvernig Tommi fer að því að setja sumar samsetningar sínar saman. Ég held einfaldlega að hann sé stundum að reyna of mikið þegar kemur að skærum litum osfrv. Ég held að Tommi ætti að leita aftur í ræturnar og vinna út frá einfaldleikanum enda myndarlegur maður með mikið sjálfstraust, easy does it. Til að vera flottastur á svæðinu þarf ekki alltaf að vera mest áberandi á svæðinu. Svo veit ég ekki alveg hvernig skal lesa í nýjasta útspil Tomma hvað varðar hárstíl. Þá litaði hann hárið dökkt og sportaði þessum rosalegu börtum. Að mínu mati fer það Tomma talsvert betur að vera ljóshærður og vel snyrtur um andlitið. En eins og ég kom inná í byrjun þá er Tommi algjört kamelljón og í raun veit ég aldrei hverju ég á von á að hann klæðist næst. Heilt yfir er þó Tommi smekkmaður sem hefur að mínu viti villst aðeins af leið og þarf að finna sitt look aftur.Jákvætt: Óhræddur. Fjölbreyttur. Jakkaval yfirleitt gott.

Neikvætt: Nýlegt hár fíaskó. Skyrtu+bindi combo oft ansi sérstök.

Reynir Leósson:

Reynir er töffari, það er ekkert flóknara en það. Mér finnst Reynir hafa náð að halda vel í sinn eigin stíl og er ekki með nein látalæti þegar kemur að klæðaburði. Reynir er mjög klassískur í sínu fatavali en þó á nútímalegan hátt. Jakkarnir passa þétt og vel á axlirnar og skyrtunar eru yfirleitt með frekar litlum kraga sem passar vel við aðsniðna jakka með mjóum boðungum. Hárið og skeggið er einnig til fyrirmyndar og gefa Reyni í raun meira frelsi til að vera bad boy í klæðaburði, hneppa jafnvel niður 1-2 tölum á skyrtunni og sleppa bindi. Reynir virkar mjög öruggur í sínu eigin skinni og fötum og skilar það sér til áhorfandans. Ef ég get gagnrýnt Reyni eitthvað þá myndi ég vilja sjá hann hjóla í aðeins djarfari combo af skyrtu/bindi/vasaklút en ég er þó mjög ánægður með hann að halda í sitt look. Reynir finnst mér einnig gera mjög vel í litavali á jökkum og hefur nýlega verið í fallega bláum jakka sem virkar mjög vel fyrir hann. Eitt trikk sem ég er hrifinn af sem hressir upp á einfalt look án bindis er að skella vasaklút í brjóstvasann, væri til í að sjá Reyni prófa það. Heilt yfir er Reynir rétt á hælunum á Hjörvari þegar kemur að best klædda manni Pepsi Markanna.Jákvætt: Mjög trúr sínu looki. Einfaldleiki. Góð snið og réttar stærðir.

Neikvætt: Örlítið íhaldssamur. Mætti nota meira krydd.
Athugasemdir
banner
banner