Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   mán 15. júlí 2024 22:04
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Adam Páls gæti farið til Perugia
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ítalska félagið Perugia hefur ekki gefist upp á því að reyna landa Adam Ægi Pálssyni frá Val og samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru góðar líkur á því að Adam sé á leið til Ítalíu.

Fótbolti.net fjallaði um það fyrir tæpum mánuði síðan að Perugia hefði lagt fram meira en eitt tilboð í leikmanninn. Upphæðirnar sem Perugia bauð voru ekki háar en ítalarnir hafa ekki gefist upp.

Perugia er í ítölsku C-deildinni, endaði í 4. sæti B-riðils deildarinnar og fór í 16-liða úrslit umspilsins um sæti í Seríu B á komandi tímabili en féll þar úr leik gegn Carrarese. Perugia var í B-deildinni í fyrra, en féll þá niður í C-deildina.

Adam Ægir er 26 ára kantmaður sem er á sínu öðru tímabili með Val. Hann kom að fjórtán mörkum í deildinni á síðasta tímabili í 20 byrjunarliðsleikjum.

Hann hefur einungis byrjað fjóra leiki í deildinni í sumar, skorað eitt mark og hefur lagt upp tvö mörk. Í bikarnum skoraði hann eitt mark og lagði upp eitt í þremur leikjum. Hann kom ekki við sögu í leiknum gegn Vllaznia í síðustu viku.

Síðasta sumar sýndi norska félagið Strömsgodset Adam mikinn áhuga en svo varð ekkert úr því. Í vor var áhugi á Adam innanlands en Valsarar samþykktu ekki tilboð.
Athugasemdir
banner
banner