Fannar Berg Gunnólfsson hefur verið ráðinn sem aðalþjálfari AB Fodbold sem vermir toppsæti þriðju efstu deildar danska boltans.
Fannar Berg var aðstoðarþjálfari Jóhannesar Karls Guðjónssonar hjá AB en Jói Kalli hefur yfirgefið félagið af persónulegum ástæðum. Hann er sagður vera að taka við FH í Bestu deildinni.
„Ég er virkilega stoltur að hafa verið boðið aðalþjálfarastarfið hjá AB. Þetta er sögufrægt félag með mjög bjarta framtíð og ég er sannfærður um að við munum halda áfram að bæta okkur sem lið til að ná fram okkar markmiðum," sagði Fannar við ráðninguna.
„Ég og Joey (Jói Kalli) deilum sömu hugmyndafræði svo ég hlakka til að halda áfram á sömu braut og við höfum verið á. Við erum að vinna í því að fullkomna leikstílinn okkar."
Fannar kom fyrst til AB í fyrra þegar hann var ráðinn til skamms tíma til að hjálpa Jóa Kalla í Kaupmannahöfn.
„Þegar ég kom hingað hafði ég ekki hugmynd um hvað þetta félag myndi þýða mikið fyrir mig á svo skömmum tíma. Ég hef komið mér vel fyrir með fjölskyldunni og ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til að halda áfram með þetta verkefni. Ég get lofað stuðningsmönnum að okkar þrotlausa vinna heldur áfram, við munum leggja mikið á okkur á hverjum einasta degi til að ná settum markmiðum og gera áhorfendur stolta."
15.11.2025 12:33
Jói Kalli hættur með AB (Staðfest) - Fannar Berg tekur við
Athugasemdir





