Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   þri 16. júlí 2024 12:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kennir KR-ingum um upplegg Shamrock á Víkingsvelli
KR gerði jafntefli gegn Víkingi í síðasta mánuði.
KR gerði jafntefli gegn Víkingi í síðasta mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Ánægja hjá Írunum með jafnteflið.
Ánægja hjá Írunum með jafnteflið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas segir að Shamrock hafi séð Víking gera jafntefli við KR.
Tómas segir að Shamrock hafi séð Víking gera jafntefli við KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þrátt fyrir aragrúa af hornspyrnum og að liðið var mun meira með boltann tókst Víkingi ekki að brjóta Shamrock á bak aftur í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar. Leikurinn endaði 0-0 og mætast liðin aftur í kvöld, nú á Tallaght leikvanginum í Dublin.

Einvígið var til umræðu í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag.

Lestu um leikinn: Shamrock Rovers 2 -  1 Víkingur R.

„Ég held það sé alveg klárt mál að þetta er mikið svekkelsi. Þeir hefðu viljað fara út með 1-2 mörk í farteskinu, en ég held þeir vinni þetta úti," sagði Brynjar Þór Gestsson sem var gestur í þættinum.

„Þeir (Shamrock) leyfðu þeim (Víkingi) að vera miklu betri. Það sem ég er hræddur við er að Shamrock Rovers er ekki varnarlið. Þeir eru að meðaltali 60% með boltann. En þeir komu hingað til lands og sá Víking spila við KR. Þeir sáu þar að Víkingur getur ekki skorað gegn afturliggjandi vörn," sagði Tómas Þór Þórðarson sem er stuðningsmaður Víkings. Hann sagði að það væri af því að annað hvort gæfu leikmenn ekki boltann fyrir eða fyrirgjafirnar væru daprar. Shamrock var minna en 30% með boltann á Víkingsvelli sem er mikil sveifla.

„Þeir umturnuðu sínum leik fyrir þennan útileik því þeir ætluðu sér ekki að fá á sig mark, og ætluðu að reyna stela þessu sem þeir hefðu svo sannarlega getað gert, fengu færi til þess. Í leikslok sást alvöru fögnuður. Þeir komu hingað til að halda hreinu og treysta svo á grasið sitt heima á Írlandi."

„Ég vil kenna Pálma Rafni og Bjarna Guðjóns (þjálfarateymi KR í leiknum gegn Víkingi) alfarið um þetta. Sýndu Shamrock hvernig á að spila á móti þessu Víkingsliði. Núna verður fróðlegt að sjá hvort þeir geri það sama á heimavelli, ætla þeir að sitja á teig eða ætla þeir að vera líkari sjálfum sér og koma aðeins framar á völlinn,"
sagði Tómas.

„Ef ég væri að þjálfa Shamrock þá myndi ég láta Víking finna lausnir frekar en að stíga eitthvað rosalega hátt upp á völlinn," sagði Brynjar.

„Víkingur hlýtur að finna lausn á þessu eins og þeir finna alltaf lausnir á öllum andstæðingum," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Þeir eru búnir að spila 180 mínútur á móti eiginlega sama kerfinu og hafa skorað eitt mark úr horni," sagði Tómas.

„Við vitum að Víkingar eru með alvöru sigurvegara innan sinna raða og ég hef fulla trú á því að þeim takist að vinna og ég veit að þeir trúa því alla leið," sagði Brynjar.

„Víkingur á að vinna þetta," sagði Tómas.

Rætt var um mikilvægi Arons Elísar Þrándarsonar sem er tæpur fyrir leikinn í kvöld. Umræðuna má nálgast eftir um hálftíma af þættinum sem má nálgast hér að neðan.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:00 og verður í textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Útvarpsþátturinn - Boltinn með Binna Gests og FIFPro
Athugasemdir
banner
banner
banner