Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   þri 16. júlí 2024 18:20
Ívan Guðjón Baldursson
Vilja McTominay til að fylla í skarðið fyrir Palhinha
Mynd: EPA
Sky Sports greinir frá því að Fulham hefur mikinn áhuga á Scott McTominay, skoskum miðjumanni Manchester United, í sumar.

Fulham er í leit að arftaka fyrir Joao Palhinha á miðjunni sem var seldur til FC Bayern á dögunum.

Fulham hafði einnig áhuga á McTominay í fyrra en tókst ekki að kaupa hann, sem varð til þess að félagaskipti Palhinha til Bayern gengu ekki upp og frestuðust um eitt ár. Fulham var ekki tilbúið til að missa Palhinha án þess að vera með öruggan arftaka til staðar.

Ef það gengur ekki að krækja í McTominay hefur Fulham einnig augastað með Pierre-Emile Höjbjerg hjá Tottenham og André, 22 ára miðjumanni Fluminense og brasilíska landsliðsins.

McTominay á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Rauðu djöflana, en í samningnum er möguleiki á eins árs framlengingu til viðbótar.

Erik ten Hag hefur miklar mætur á McTominay og telur hann vera mikilvægan liðsmann. Man Utd mun því ekki selja leikmanninn með neinum afslætti.

Galatasaray hefur einnig áhuga á McTominay og Höjbjerg til að styrkja miðjuna hjá sér.
Athugasemdir
banner
banner
banner