Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fös 16. ágúst 2013 11:30
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Benvenuto a tutti!
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Mario Gomez er kominn til Fiorentina.
Mario Gomez er kominn til Fiorentina.
Mynd: Getty Images
Emil Hallfreðsson og félagar Hellas Verona eru komnir upp í A-deildina.
Emil Hallfreðsson og félagar Hellas Verona eru komnir upp í A-deildina.
Mynd: Getty Images
Walter Mazzarri er tekinn við Inter.
Walter Mazzarri er tekinn við Inter.
Mynd: Getty Images
Carlos Tevez er kominn í raðir Juventus.
Carlos Tevez er kominn í raðir Juventus.
Mynd: Getty Images
Fernando Llorente er einnig kominn til Juventus.
Fernando Llorente er einnig kominn til Juventus.
Mynd: Getty Images
Vladimir Petkovic, þjálfari Lazio.
Vladimir Petkovic, þjálfari Lazio.
Mynd: Getty Images
Mario Balotelli litar ítölsku deildina.
Mario Balotelli litar ítölsku deildina.
Mynd: Getty Images
Rafael Benítez er þjálfari Napoli.
Rafael Benítez er þjálfari Napoli.
Mynd: Getty Images
Gonzalo Higuain er kominn í Napoli.
Gonzalo Higuain er kominn í Napoli.
Mynd: Getty Images
Manolo Gabbiadini er kominn til Sampdoria á láni frá Juventus.
Manolo Gabbiadini er kominn til Sampdoria á láni frá Juventus.
Mynd: Getty Images
Luis Muriel, leikmaður Udinese.
Luis Muriel, leikmaður Udinese.
Mynd: Getty Images
Nú er nýtt knattspyrnutímabil í uppsiglingu á Ítalíu. Fallegasta knattspyrnudeild í heimi fer af stað þann 24 ágúst þegar Emil Hallfreðsson og félagar í Verona mæta AC Milan á heimavelli.

Sumarið er búið að vera langt og leiðinlegt, veðrið hér allt öðruvísi en á Ítalíu og miklar sviptingar hafa orðið hjá nokkrum liðum í Serie-A. Ég ætla aðeins að renna yfir liðin og leikmannahópanna og gera grein fyrir helstu breytingum sem orðið hafa í sumar.

Atalanta
Stefano Colantuono er nú að hefja sitt fjórða tímabil sem þjálfari Atalanta. Liðið endaði í 15. Sæti í fyrra og litlar breytingar hafa verið á leikmannahópi liðsins í sumar. Mario Yepes kom á frjálsri sölu frá AC Milan og mun styrkja varnarlínuna og Luca Cigarini sem var á láni hjá félaginu í fyrra verður áfram með Atalanta í vetur. Félaginu tókst að halda stærstu leikmönnunum sínum, Bonaventura og Denis og því má búast við því að félagið verði á svipuðum slóðum í deildinni og í fyrra.

Bologna
Hinn ungi og efnilegi þjálfari liðsins Stefano Pioli verður áfram á bekknum hjá félaginu í vetur. Hann var orðaður lengi við þjálfarastöðuna hjá Roma, en ekkert varð út því. Bologna hefur náð að halda flestum sínum stjörnum, til dæmis Diamanti og Saphir Taider, sem var sterklega orðaður við Inter í sumar. Gilardino sneri hins vegar aftur til Genoa eftir að lánssamningur hans rann út, en í staðinn fékk Bologna til sín hinn nautsterka Rolando Bianchi frá Torino. Hann verður að finna markaskóna ef Bologna ætla sér að bæta árangurinn frá því í fyrra eða 13. Sæti.

Cagliari
Eyjaskeggjarnir frá Cagliari eru örugglega það félag sem hefur látið minnst til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar. Enginn nýr leikmaður hefur komið til félagsins en hins vegar verður að telja það mikinn sigur að ná að halda Radja Nainggolan og Davide Astori, en þeir tveir eru mjög eftirsóttir leikmenn. Sérstaklega Nainggolan hefur verið orðaður við félög utan landssteinanna, en allt kom fyrir ekki og hann er enn um kyrrt á eyjunni.

Catania
Sikileyjarfélagið er orðið að mjög áhugaverðu samansafni af skemmtilegum leikmönnum. Panagiotis Tachtstidis kom til félagsins eftir að hafa leikið með Roma á síðasta tímabili. Þessi leikmaður var í miklu uppáhaldi hjá Zeman og því nokkuð ljóst að hann býr yfir miklum hæfileikum. Maxi Lopez kemur einnig til félagsins eftir að hafa eytt síðasta tímabili á láni hjá Sampdoria. Sóknarlína liðsins lítur því mjög vel út með marga flotta argentínska leikmenn. Þeir misstu hins vegar Francesco Lodi, leikstjórnandann á miðjunni og hans verður alveg örugglega saknað. Vörninni stjórnar hinn alltaf-jafn-guðhræddi Nicola Legrottaglie og miðjunni hinn geðþekki Sergio Almiron. Catania gæti komið skemmtilega á óvart í vetur ef þeir finna taktinn sem einkenndi leik þeirra á tímabili í fyrra þegar þeir enduðu í 8. Sæti.

Chievo Verona
Asnarnir fljúgandi hafa verið mjög duglegir í leikmannaglugganum í ár, en þeir hafa hins vegar ekki sótt til sín nein “nöfn”. Þetta eru allt leikmenn sem hafa ekki verið fastamenn í sínum liðum undanfarin tímabil og því veit maður ekki við hverju hægt er að búast frá þeim. Liðið endaði í 12. Sæti í fyrra og sigldi um lygnan sjó næstum allt tímabilið. Cyril Théréau og Alberto Paloschi voru flottir í fremstu víglínu á meðan hinn leikreyndi Dario Dainelli stjórnaði vörninni vel. Eiginlega verður að búast við að félagið muni áfram sigla lygnan sjó um miðja deild.

Fiorentina
Þetta er liðið sem hefur mögulega staðið sig best í glugganum í ár. Mario Gomez, Josip Ilicic og Joaquin munu allir styrkja sóknarleik liðsins, auk þess sem Giuseppe Rossi er loksins orðinn heill eftir gríðarlega löng meiðsli. Hópur Fiorentina er ógnarsterkur og þrátt fyrir að hafa misst Jovetic þá eru komnir nýir leikmenn í hans stað. Adem Ljajic er verðugur arftaki Jovetic og ég tel hann vera einn efnilegasta leikmann deildarinnar eftir að hafa þroskast gríðarlega undanfarið ár. David Pizarro, Borja Valera og Alberto Aquilani verða öflugir á miðsvæðinu auk þess sem Manuel Vargas snýr aftur frá lánsdvöl hjá Genoa. Eini veiki hlekkur liðsins gæti verið varnarleikurinn. Liðið fékk á sig 44 mörk í fyrra sem er of mikið miðað við liðin sem félagið keppir við. Það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með þeim og spurning hvort þeir nái jafnvel að gera atlögu að titlinum.

Genoa
Þjálfaraskipti urðu í sumar þegar Fabio Liverani tók við af Davide Ballardini. Liverani er fyrrum leikmaður sem lék meðal annars með Lazio, Fiorentina og Palermo á sínum ferli. Hann var frægur fyrir yfirburðar spyrnufót og frábæra útsjónarsemi. Má búast við að hann leggi áherslu á að liðið spili fallega knattspyrnu. Hann fékk til sín Francesco Lodi frá Catania. Má segja að hann sé svipaður leikmaður og Liverani var á sínum tíma. Lodi skoraði ásamt Andrea Pirlo flest mörk úr aukaspyrnu af öllum leikmönnum í sterkustu deildum Evrópu, eða fimm talsins. Auk Lodi komu til félagsins þeir Rodney Strasser frá AC Milan sem er framherji og Giovanni Marchese, vinstri bakvörðurinn frá Catania. Gilardino snýr aftur úr láni og mun taka stöðu fremsta manns af Marco Borriello sem sneri aftur til Roma. Hinn efnilegi Andrea Bertolacci er í sameiginlegri eigu Roma og Genoa og mun hann spila stórt hlutverk hjá liðinu í ár. Ég geri ráð fyrir að Genoa muni ná betri árangri heldur en síðasta ár, og munu þeir líklega enda á efri helmingi töflunnar.

Hellas Verona
Félag Emils Hallfreðssonar er nýliði í Serie-A, og hafa þeir heldur betur bætt við sig leikmönnum. Bosko Jankovic frá Genoa getur reynst drjúgur auk þess sem Massimo Donati sýndi ágætis takta hjá Palermo í fyrra. Stærsti bitinn er hins vegar hinn síkáti Luca Toni. Það er maður sem getur alltaf skorað mörk, jafnvel þótt aldurinn sé farinn að segja til sín. Romulo var líka að koma til liðsins á láni frá Fiorentina, en að öðru leyti verður liðið byggt upp á leikmönnum sem komu félaginu upp í deild þeirra bestu. Félagið var búið að sýna stöðugleika í toppbaráttunni í Serie-B undanfarin ár, sem ætti að benda til þess að í liðinu séu góðir fótboltamenn.

Internazionale
Miklar sviptingar hafa verið hjá Inter í sumar. Stærsta breytingin er á þjálfaranum, en Walter Mazzarri, sem hefur stýrt Napoli undanfarin ár er tekinn við liðinu. Hann er gallharður stuðningsmaður þriggja manna varnarlínunnar og má því búast við að grundvallarbreyting verði á leikstíl liðsins. Gian Piero Gasperini gerði tilraun til þess að láta liðið spila með þriggja manna varnarlínu árið 2011 en var rekinn eftir ömurlegt gengi eftir aðeins fáa leiki. Það verður því spennandi að sjá hvernig keðjureykingamanninum Mazzarri tekst til. Hann tók með sér Hugo Campagnaro, miðvörðinn, frá Napoli auk þess sem félagið fékk Marco Andreolli á frjálsri sölu frá Chievo. Andrea Ranocchia hefur áður verið í miklum vandræðum í þriggja manna vörn, en menn bíða spenntir eftir að sjá hvort hann fái tillit frá Mazzarri. Annars hafa þeir einnig bætt við sig Rolando frá Porto, Wallace á láni frá Chelsea, Ishak Belfodil, sem er spennandi framherji sem kom frá Parma og síðan er Mauro Icardo gríðarlegt efni sem kemur frá Sampdoria.

Ef leikmenn Inter taka vel í hugmyndir Mazzarris og hlýða honum í einu og öllu þá gæti Inter blandað sér vel í toppstríðið, þeir eru með það sterkan leikmannahóp. En af sögunni að dæma þá gæti tímabilið orðið erfitt fyrir Mazzarri.

Juventus
Gamla daman hefur í sumar haldið áfram leit sinni að öflugri sóknarmönnum og fengið til liðs við sig Carlos Tevez og Fernando Llorente. Matri og Quagliarella eru fínir leikmenn í Serie-A en þegar kemur að Meistaradeildinni þá er þörf á reyndari mönnum sem búa yfir meiri hæfileikum. Llorente hefur að vísu ekki verið að spila vel á undirbúningstímabilinu, en það hefur loðað svolítið við Spánverja á Ítalíu að vera í basli. Liðið keypti einnig Angelo Ogbonna frá nágrönnunum í Torino og þá verður að viðurkennast að félagið er þar með kannski með öflugustu varnarlínu í Evrópu, með Bonucci, Ogbonna, Chiellini og Barzagli. Kaupin á Ogbonna benda til þess að Conte hyggst halda áfram með þróun sína á þriggja manna varnarlínu. Juventus verða gríðarlega öflugir í ár og líklegir til þess að taka titilinn enn eitt árið. Þeir hljóta hins vegar að horfa til Meistaradeildarinnar og vilja einbeita sér að henni.

Lazio
Sumarið er búið að vera mjög skrýtið fyrir félagið. Stærstu fréttirnar í glugganum voru sennilega þær að búið er að dæma fyrirliða liðsins, Stefano Mauri, í bann frá knattspyrnu og félagið hefur ekki fengið til sín neina leikmenn sem menn þekkja fyrir utan miðjumanninn Lucas Biglia. Lazio kom mörgum á óvart í fyrra og unnu þeir til að mynda ítalska bikarinn. Þeir eru því með mjög öflugt lið sem ætti áfram að geta barist um Evrópusæti. Það er hins vegar kanski erfitt fyrir félag að byggja upp stemningu þegar fyrirliðinn er í banni, en það verður helsta verkefni Vladimir Petkovics, þjálfara félagsins.

Livorno
Nýliðarnir frá verkamannabænum Livorno eru þekktir fyrir baráttu sína inni á vellinum. Ég gat lítið horft á þá í fyrra en heimildir mínar herma að þeir berjist ávallt til síðasta blóðdropa og það er augljóslega mikilvægt fyrir félag sem kemst upp í deild hinna bestu. Þeir verða að gera steinsteypuklessuna Stadio Armando Picchi, sem þeir kalla heimavöll sinn, að algeru vígi. Leandro Greco var fenginn til liðs við félagið frá Olympiacos á Grikklandi, en hann er uppalinn í Roma og sýndi þar lipra takta áður en hann hélt til Grikklands. Hann gæti reynst þeim mjög öflugur. Félagið hefur einnig í svolítinn tíma reynt að fá Alfred Duncan á láni frá Inter, en hann á að vera eitt stærsta efnið á Ítalíu um þessar mundir.

AC Milan
Félag Berlusconis gæti vel gert atlögu að titlinum í ár, en það ræðst líklega af því hvort þeir nái að byrja tímabilið betur en í fyrra. Í ár verður Balotelli með þeim allt tímabilið, en hann reyndist þeim gríðarlega vel eftir að hann kom frá Manchester City í janúar. Andrea Poli var fenginn á miðjuna en hann lék mjög vel með Sampdoria á síðasta tímabili. Riccardo Saponara er líka nafn sem vert er að muna eftir. Hann er uppalinn hjá Milan og sló í gegn á láni hjá Empoli í fyrra. Matias Silvestre kemur í vörnina frá nágrönnunum í Inter eftir misheppnaða dvöl þar. Mikil áhætta er fólgin í þeim kaupum. Áður en hann fór til Inter lék hann mjög vel með bæði Palermo og Catania þar sem hann var markahæsti varnarmaður deildarinnar tvö ár í röð.

Napoli
Það elska allir Napoli þegar vel gengur. Þetta er eitthvað sem Rafa Benitez mun fá að kynnast. Ekki aðeins er borgin sjálf ein stór púðurtunna heldur er yfirmaður íþróttamála einn litríkasti karakter sem finna má í stígvélalandinu. Eftir flott tímabil undir stjórn Walter Mazzarri er nú komið að Benitez að taka félagið síðasta spölinn að titlinum sjálfum. Cavani var seldur, en í staðinn hafa þeir fengið Gonzalo Higuain. Í markinu hafa þeir skipt út hinum sérvitra Morgan De Sanctis fyrir Pepe Reina og hollendingurinn Dries Mertens hefur sýnt lipra takta á undirbúningstímabilinu. En þá vantar sárlega varnarmenn. Þetta ár verður erfitt varnarlega. Benitez hefur oftast notast við fjögurra manna vörn en félagið er nokkurn veginn með þriggja manna vörn í erfðaefni sínu. Ef Benitez tekst að stilla varnarleikinn af, þá er nóg af efnilegu sóknarmönnum sem geta klárað leiki. Lorenzo Insigne er búinn að vera stórkostlegur í sumar og skoraði til að mynda glæsilegt mark í sínum fyrsta A-landsleik gegn Argentínu á dögunum. Það verður spennandi að sjá hvort Benitez tekst það sem honum er ætlað að gera, eða hvort púðurtunnan springi of snemma.

Parma
Roberto Donadoni hefur nú stýrt Parma í tvö ár og náð ágætisárangri með liðið sem hann hefur í höndunum. Antonio Cassano er hins vegar mættur á Ennio Tardini og við það batnar sóknarleikur liðsins gríðarlega. Áður hefur mjög mikið hangið á hraðanum hans Jonathans Biabiany. Frammi eru þeir einnig með Raffaele Palladino sem er efnilegur leikmaður sem á þó enn eftir að springa almennilega út. Amauri gæti potað inn nokkrum mörkum en það er ekki líklegt að félagið blandi sér inn í mikla baráttu um Evrópusæti að mínu mati.

Roma
Tilraunin með Zdenek Zeman heppnaðist ekki á síðasta tímabili. Sóknarleikurinn var oft á tíðum eins og sólsetur á heiðskýrri nóttuá meðan varnarleikurinn mætti oftar en ekki afgangi. Í sumar seldi félagið hinn efnilega Marquinhos til PSG en í staðinn fengu þeir Mehdi Benatia sem hefur leikið gríðarlega vel í miðvarðarstöðunni hjá Udinese undanfarin ár. Maicon kemur til með að spila í hægri bakverði, og þrátt fyrir að hafa lítið spilað á síðasta tímabili þá hefur hann á undirbúningstímabilinu sýnt að enn lifir í gömlum glæðum og svo virðist sem hann sé að komast í ásættanlegt líkamlegt form. Á miðjunni bættu þeir við sig Kevin Strootman frá PSV og mun hann mynda miðju ‘tridente’ með þeim De Rossi og Pjanic. Í markið er svo kominn sprelligosinn Morgan De Sanctis. Nýr þjálfari liðsins, Rudi Garcia ákvað svo að fá sinn gamla lærisvein frá tíma sínum í Lille, Gervinho til borgarinnar eilífu og verður spennandi að sjá hvort hann rifji upp gamla takta. Búast má við að Roma berjist um Evrópusæti, en ég held að Rómverjar séu með hóflegar væntingar eftir vægast sagt sveiflukennd tímabil síðustu ára.

Sampdoria
Erfitt er að segja til um hvar Sampdoria verðu staðsett á töflunni á næsta tímabili. Þeir hafa misst Poli og Icardi, en fengið til sín lögfræðinginn Lorenzo De Silvestri frá Fiorentina og Salomon Bartosz frá AC Milan. Að auki kemur Manolo Gabbiadini frá Juventus á láni, en hann er einn efnilegasti framherji landsins og ég spái því að hann muni skora þó nokkur mörk á tímabilinu. Delio Rossi þjálfar liðið eftir að hafa tekið við félaginu árið 2012. Hann er reynslumikill skaphundur sem hefur þjálfað lengi í efstu deild. Leikmannahópurinn er hins vegar þunnur og það þarf ekki mikið til þess að liðið lendi í basli í deildinni að mínu mati.

Sassuolo
Áhugaverðustu nýliðarnir á tímabilinu eru Sassuolo. Þeir koma frá 40 þúsund manna héraði á Norður-Ítalíu og sigruðu Serie-B í fyrra. Efnilegasti leikmaður liðsins er án efa Domenico Berardi. Hann er fæddur 1994 og spilaði langflesta leiki félagsins í fyrra. Er hann leiftursnöggur framherji sem bíður spenntur eftir að sanna sig í deild þeirra bestu. Annar mikilvægur leikmaður er Simone Missiroli. Hann á marga leiki í Serie-A að baki með Reggina en var í fyrra atkvæðamikill á miðsvæðinu hjá þeim grænklæddu. Í glugganum hafa þeir bætt við sig varnarmanninum Luca Antei frá Roma, en hann á að vera mikið efni. Simone Zaza er annar leikmaður sem var keyptur að helmingi frá Juventus. Á hann að veita Berardi félagskap í fremstu víglínu. Leikgleði einkenndi leik Sassuolo í fyrra þegar þeir komu flestum að óvörum og sigruðu Serie-B. Það bíða því flestir með eftirvæntingu eftir að sjá þá í efstu deild, en róðurinn verður erfiður og líkur liggja að því að botnbarátta verði raunin.

Torino
Giampero Ventura, þjálfari liðsins er mikill aðdáandi 4-4-2 leikkerfisins. Það er leikkerfið sem notaði hjá Bari á sínum tíma og í fyrra með Torino. Lið hans spila oft á tímum skemmtilega knattspyrnu sem byggir á að spila alltaf boltanum út úr vörninni. Í fyrra lék framherjinn Rolando Bianchi í fremstu víglínu sem er öflugur skallamaður, en í ár er hann farinn. Það gæti haft áhrif á leikstílinn að hafa ekki stóran skallamann fremst. Á kantinum hafa þeir hinn leiftursnögga Alessio Cerci sem hefur unnið sér inn sæti í ítalska landsliðinu á árinu. Félagið missti Angelo Ogbonna, miðvörðinn sterka til nágrannanna í Juventus en fengu í staðin Cesare Bovo frá Genoa. Bovo er leikreyndur og skipulagður varnarmaður sem Ventura kann örugglega að meta. Hann og Kamil Glik mynda því stæðilegt miðvarðarpar. Vandamál liðsins er hins vegar hver á að skora mörkin?

Udinese
Félagið er líklega best rekna félag í Evrópu. Ár eftir ár koma fram stórglæsilegir knattspyrnumenn sem eru seldir ári seinna með hagnaði. Nú er það Luis Muriel sem er stóra nafnið (auk Di Natale að sjálfsögðu). Muriel sló í gegn í fyrra með sínum gríðarlega hraða. Í sumar hefur Udinese misst Benatia til Roma en í staðin fengið tvo efnilega leikmenn frá sama liði. Nicolas Lopez er efnilegur kantmaður og Valerio Verre þykir eitt mesta miðjuefni Ítala um þessar mundir. Líklegast er einnig að einhverjir fleiri ungir leikmenn sem enginn hefur heyrt um muni slá í gegn, en aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

Ég vona að þetta hafi komið einhverjum að gagni sem hafa áhuga á að fylgjast með ítölsku deildinni í vetur.

Alla prossima
Björn Már Ólafsson
Athugasemdir
banner
banner
banner