Dramatíkin hjá Manchester United og Cristiano Ronaldo er að nálgast nýjar hæðir eftir ummæli portúgölsku stórstjörnunnar á Instagram.
Ronaldo og hans teymi fylgjast vel með aðdáendaprófílum hans á Instagram sem eru oftar en ekki skírðir í höfuðið á honum. Þessir prófílar eru sumir hverjir með mörghundruð þúsund fylgjenda.
Hann hefur nokkrum sinnum tjáð sig í ummælum hjá slíkum prófílum og gerði það aftur í dag. Hann er þó búinn að eyða ummælunum út.
„Þið munuð heyra sannleikann þegar ég gef viðtal eftir nokkrar vikur. Fjölmiðlar gera ekkert nema ljúga. Síðustu mánuði hef ég skrifað niður hundrað fyrirsagnir af fréttum sem fjalla um mig og aðeins fimm þeirra eiga sér stoð í raunveruleikanum," skrifaði Ronaldo.
Framtíð Ronaldo hjá Man Utd er í óvissu þar sem sóknarmaðurinn er talinn vilja skipta um félag en enginn virðist vera reiðubúinn til að kaupa hann.