Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   mán 16. september 2013 15:15
Magnús Þór Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Mótaniðurröðun og íslenskt veðurfar
Magnús Þór Jónsson
Magnús Þór Jónsson
Leiknismenn í maí 2011
Leiknismenn í maí 2011
Mynd: Twitter
Rajkovic og skíðagleraugun
Rajkovic og skíðagleraugun
Mynd: Gunnar Gunnarsson
Fótboltavöllur á sunnlensku hausti
Fótboltavöllur á sunnlensku hausti
Mynd: Gunnar Már Guðmundsson
Mynd: Vignir Egill
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Ég var einn af þeim Snæfellsbæingum sem ákvað í gær að henda mér á Vesturlandsslaginn í Pepsi deildinni. Leik ÍA og Víkings á Akranesi.

Enda leikur sem skiptir nú ansi miklu máli í fallbaráttu PEPSI-deildar sumarið 2013, leikur sem mínir menn í Víkingi ætluðu sér að vinna.

Til að ná að vera kominn í leik á Skaganum nógu snemma til að fá sér kaffi og stríða ættingum og vinum í gula liðinu þarf maður að leggja í hann ca. tveimur og hálfum tíma fyrir leik og það gerði ég í gær.  Pikkaði upp mann á leiðinni og við rúntuðum af stað.

Fórum yfir Borgarfjarðarbrúna og þá kom hringingin frá einum stjórnarmanni Víkings sem sagði Erlend dómara búinn að blása leikinn af.  Við félagarnir erum stóískir, fórum í Olís sjoppuna, fengum okkur Pipp og Buffaló, bættum einum stuðningsmanni við og keyrðum heim spjallandi um boltann.

Í kjölfar frestananna í gær og nokkurra viðlíka atvika í sumar hefur töluverð orðræða beinst að starfsmönnum KSÍ og starfsháttum þegar kemur að slíkum frestunum.  Auðvitað er afskaplega bagalegt að þegar veðrið þarf að verða vitlaust þá séu að fara í gang leikir þar sem fólk þarf að ferðast hundruði kílómetra til að verða svekkt.  Öfugt við t.d. Fylkisfólk sem var sennilega flest ennþá heima í stofu þegar fréttin birtist.

En það er hægt að horfa á þetta með mörgum gleraugum.  T.d. skíðagleraugum eins og þeim sem núverandi markmaður Þórs, Srdan Rajkovic gerði í leik Fjarðabyggðar og ÍR þann 22.maí árið 2006.  Þá var ég þjálfari ÍR.

Við höfðum keypt okkur flug með góðum fyrirvara og þegar slæm veðurspá kom upp var strax reynt að sjá hvað hægt væri að gera.  Flugfélag Íslands var fyrsti ásteitingarsteinninn því ekki kom til greina að greiða nema hluta kostnaðarins til baka.  Þar sem ÍR var ekki á þessum tíma með ríkari liðum flugum við umræddan dag og keyrðum niður á Eskifjörð.

Þorvaldur Örlygsson var þjálfari Fjarðabyggðar þann dag og við vorum auðvitað algerlega sammála því að það væri vonlaust að spila í þessu veðri, enda átti þessi leikur ekki neitt skylt við íþróttina, hápunktarnir voru tveir, fyrst þegar varamannaskýlið okkar fauk, þó allir ÍR ingarnir væru í því og svo í þrjú skipti tók Kjarri markmaður útspark af jörðinni og fékk á sig horn.  En úrslitin töldu og höfðu töluverð áhrif, þ.á.m. um starfsferil undirritaðs.

Dómarinn var auðvitað undir pressu að ljúka leiknum.  Við hefðum orðið að finna gistingu fyrir liðið okkar eða fara bara heim og koma seinna.  Þétt var í prógramminu og málið því seint líklegt til að öðlast mikinn þunga innan hreyfingarinnar.

En ég er alveg sannfærður um að t.d. umfjöllun um þennan leik á þessum tíma hefur haft einhver áhrif því fljótlega upp úr þessu fór að heyrast af leikjum sem frestað var þar sem ótækt var að spila fótbolta.  Sem gerðist yfirleitt ekki.  Ég man eftir leik með KS í ágúst einu sinni þar sem vindurinn gerði jöfnunarmark fyrir okkur sem fleytti okkur áfram í úrslitakeppni og þegar ég vann fyrir Val 2000 þá var úrslitaleikur um fallið það ár leikinn í 25 metrum og rigningu gegn ÍBV.

Svo mér finnst skipta máli að eitt sé á hreinu.

Í kolvitlausu íslensku veðri á ekki að spila fótboltaleiki!

Það verður alltaf að vera lykilatriðið í þessu öllu, veður á ekki að vera í aðalhlutverki í leikjum sem skipta máli í móti.  Því það er algerlega ömurlegt að vera búinn að byggja upp plan og skipulag til þess eins að snúa þér að innköstum og hornum sem aðalmálinu.

En umræðan hefur svolítið snúist að KSÍ og ég velti fyrir mér hvort þeir einir geta tekið á sig þá ábyrgð að mótið er nú komið í alveg suddalegar þrengingar.  Ég viðurkenni að mér finnst það einföldun því það kemur mér lítið á óvart að svona staða komi upp.

Ég hef nefnilega lengi verið eins og púkinn á fjósbitanum þegar menn hafa talað fjálglega um að "lengja mótið enn frekar" og vísa t.d. til Færeyinga sem fyrirmyndar.  

Ég held að eftir sumarið 2013 hljóti menn innan hreyfingarinnar, á aðalfundi að velta fyrir sér hvort við verðum ekki að rýna fast innávið og velta upp mörgum steinum. 

*  Liðin á norðurlandi léku flestöll leiki sína utan heimabyggðar í vor, síðastir voru Tindastólsmenn að spila á alvöru heimavelli, 27.júní.

* Allir leikir á Austurlandi til 10.júní fóru fram á gervigrasi.

Ég veit auðvitað fullvel að það eru ekki mörg lið í efstu deild sem spila á þessum svæðum, Þórsvöllurinn var auðvitað nýttur í Pepsi en var varla boðlegur skilst mér.  Ef t.d. næsta fótboltaævintýri verður Höttur, hvað þá?

Ég spilaði minn fótbolta á Norðurlandi í lok síðustu aldar.  Ég fullyrði það að reglan var sú að ekki var hægt að komast inn á gras fyrr en í júní, þó undantekningar væru á því.

Svo eitt af því sem þarf að fara að horfa til er hvort að næsta áhersla í leikvangamálum er að liðin eigi gervigrasvelli til að grípa til.  Sú áhersla Færeyinga þýðir auðvitað að þeir geta spilað frá í mars og út október.  Vorin á Íslandi leyfa ekki grassprettu nema á litlum hluta landsins til að byrja að spila í apríl.  Það að stefna að því segir þá að menn séu tilbúnir að fórna hagsmunum liða fyrir norðan, vestan og austan.  

Svo ég myndi telja tímabært fyrir KSÍ að fara í umræðu við sveitarfélögin um möguleika á samstarfi um gervigrasvelli.

En nú er svo komin upp önnur gömulgróin og þekkt staðreynd, mikið úrkomusumar á sunnanverðu landinu.  Aftur vísa ég til síðustu aldar og ferilsins þar, yfirleitt komu vellirnir fyrir norðan seinna til en dugðu lengur og vellirnir fyrir sunnan voru komnir í mauk á haustin.

Eins og nú er komið.  Völlurinn í Ólafsvík hefur aldrei litið eins út frá því ég kom hér 2006, en vinnustundirnar sem í hann eru lagðar eru eiginlega ómennskar held ég og við munum ná að sjá hann þokkalegan í síðasta leik held ég.

Myndin sem fylgir fréttinni er af Hásteinsvelli sem á að höndla tvo fótboltaleiki á næstu fjórum dögum.  Ég er alveg sannfærður um að þá þarf að gerast stærra kraftaverk en maður getur ímyndað sér til að koma í veg fyrir að hann sé ónýtur.  Enda heyrðist mér í morgun ÍBV vera að spá í að leita sér að heimavelli fyrir einhvern heimaleikjanna sem eftir eru.  Sem er auðvitað algerlega ömurlegt.

Á síðustu öld, þegar ég var að spila, voru liðin 10 og leikirnir 18.  Auk þess sem að "stóru" liðin komu inn í bikarkeppnina þegar bara 6 lið úr neðri deildum komu inn.

Fjölgun í deildum hefur verið ákveðin á þingum KSÍ og í öllum tilvikum hafa starfsmenn sambandsins goldið varnagla við því að lítið þurfi útaf að bregða til að mótið og uppröðun þess fari í uppnám.

Það var áður en að liðin okkar fóru að taka þátt í forkeppnum Evrópu sem hafa sem betur fer þýtt 4 - 6 Evrópuleiki á hvert liðanna undanfarin ár.

En þetta hefur verið vilji félaganna, stórra og smárra.  Algerlega fair enough því þau ráða.  En sumarið 2013 er sumar þar sem við höfum sko heldur betur rekið okkur á ýmislegt sem skýrir nú kannski betur hvers vegna varnaglarnir voru slegnir.  Við verðum bara að viðurkenna að snúningarnir sem núna eru framundan þýða fullt af "reddingum", leiktíminn á Akranesi á miðvikudaginn t.d. mun þýða að töluvert færra verður af snæfellskum áhorfendum held ég, en vona þó ekki.

Samt hefur t.d. mítan um að ekki sé hægt að leika um Verslunarmannahelgi verið brotin upp, spáið nú í ef það væri eftir.

Ég var líka á þinginu þegar ákveðið var að færa bikarúrslitaleikinn eftir mót, það var gert til að draga úr álagi flestra liðanna, aðeins tvö sætu þá eftir með leik í lok september eða byrjun október.  Sennilega væru einhverjir til í að skipta einhverju af þessu út og skoða ýmislegt.

Það verður gaman að sjá hvað mun gerast loksins þegar Birkir og félagar loka mótinu í haust.  Þá vona ég að félögin setjist nú niður og aðstoði KSÍ við að læra af þessu móti og velti fyrir sér lykilspurningum í kjölfar þess að íslenska sumarið datt í "gamla" farið í kjölfar snjóþungs veturs og tímabært að hugsa margt upp á nýtt.

Nokkur dæmi?

*  Ráða þrjár efstu deildirnar við 12 liða deild?

*  Er tímabært að leggja aðaláherslu (og þ.m. taka inn í leyfiskerfi) uppbyggingu gervigrasvalla á landinu?

*  Er almennur vilji í hreyfingunni að leikir séu leiknir í innanhússhöllum langt frá heimabyggð, telja menn t.d. jafn eðlilegt að Víkingur leiki í höllinni á Akranesi og það þótti að Tindastóll spilaði í Boganum?

*  Eigum við að fara að taka upp "ensku deildarbikarregluna" og hleypa þeim liðum sem leika í evrópukeppni inn í 16 liða úrslit bikarkeppninnar?

*  Á að taka upp reglu þar sem að dómara er gert skylt að slá leiki af með t.d. 4ra tíma fyrirvara til að koma í veg fyrir ferðalög liða og áhangenda (þó það sé t.d. ekki nóg fyrir Keflavík - Þór)?

* Er orðið tímabært að setja umferð í mótinu á Verslunarmannahelgi?

* Er orðið tímabært að setja upp "lágmarksfjölda leikmanna í landsliðsverkefnum" til að sækja um frestun.  Í neðri deildum Englands er frestað þegar þriðji leikmaður liðs er valinn í landslið sem snertir leikdag.

*  Þarf að fara að festa lágmarkshvíld liða í Evrópukeppni svo að ekki komi til umræðna eins og í sumar þegar Blikar mættu til leiks í undanúrslit bikarsins?

Ég veit ekki hversu margir hafa lesið þennan pistil hingað niður, en hann er tilraun til þess að velta af stað umræðu sem byggir á því hvað hefur komið upp á undanförnum vikum og mánuðum.  Því miður finnst mér vísifingur sem bendir á hverjum er "að kenna" fara of oft á loft.

Verkefnið er sameiginlegt sýnist manni miðað við spár sem telja þetta sumar vísbendingu um næstu.  Núna þurfum við að vera klár í það.

Því það verður gott að vera búin að undirbúa sig á einhvern hátt áður en að landsliðið okkar fer í úrslitakeppni EM eða HM.

Þá fyrst þurfum við nú að senda Birki góða strauma!!!


Athugasemdir
banner
banner