Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fös 16. desember 2022 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Var ein sú besta á landinu: Hvernig endaði Cousins aftur á Íslandi?
Katie Cousins.
Katie Cousins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar.
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingunn Haraldsdóttir (með fyrirliðabandið) er komin í Þrótt.
Ingunn Haraldsdóttir (með fyrirliðabandið) er komin í Þrótt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sæunn Björnsdóttir.
Sæunn Björnsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katie Cousins er mætt aftur í íslenska boltann eftir að leikið með Þrótti í fyrra. Hún var einn besti leikmaður deildarinnar og var valin inn á miðjuna í liði ársins ásamt Láru Kristínu Pedersen og Dóru Maríu Lárusdóttur.

Cousins er 24 ára miðjumaður og lék með Tennessee háskólanum í Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga á sínum ferli og á að baki fjölda leikja með hinu geysisterka U20 ára landsliði Bandaríkjanna. Lék hún meðal annars með því á HM U20 kvenna árið 2016.

Eftir tímabilið 2021 þá fór hún aftur heim til Bandaríkjanna og gekk í raðir Angel City FC, sem er nýtt félag í úrvalsdeildinni þar. Hún fékk lítið að spila þar.

„Ég held sambandi við flesta af þeim erlendum leikmönnum sem hafa verið hjá okkur, bara til að sjá hvernig þeim gengur og líka til að fylgjast með þróun þeirra. Það var ekkert öðruvísi með Katie og ég sá að hún var ekki að spila neitt með Angel City. Ég náði því að sannfæra hana um að koma aftur til Íslands," segir Nik í samtali við Fótbolta.net.

„Hún naut þess að vera á Íslandi, að vera hluti af þessu liði og henni leið líka vel utan vallar. Hún byrjaði líka að taka þátt í kirkjustarfi og það var margt jákvætt við það að koma aftur hingað, frekar en að hoppa í einhverja óvissu. Það er gott fyrir hana að koma hingað og spila mikið, bæta sig sem leikmaður, fá mikið sjálfstraust og svo líklegast fara eitthvað annað aftur svo."

Sjá einnig:
Leikmaður Þróttar tók sér pásu til að starfa í kristilegum söfnuði

Af hverju var hún ekki að spila með Angel City? „Það er eitthvað sem þú verður að spyrja þjálfarateymið hennar þar. Ég var heppinn að vera í Los Angeles þegar hún lék sinn fyrsta leik fyrir félagið. Það var frábært að sjá."

Getur hún aftur verið einn besti deildarinnar, líkt og hún var síðast?

„Ég vona það. Hún kemur aðeins fyrr en hún gerði þegar hún var hér síðast. Hún tekur þátt í undirbúningstímabilinu og mun spila nokkra leiki. Hún þarf á því að halda þar sem hún hefur ekki verið að spila margar mínútur."

„Hún býður líka upp á það að vera frábær leikmaður til að læra af. Álfa, fyrirliði liðsins, bætti sig mikið þegar hún spilaði með Katie árið 2021. Ég býst við því að Katie muni hafa svipuð áhrif á fleiri leikmenn okkar í þetta skiptið."

Ingunn og Sæunn líka komnar
Cousins er ekki eini leikmaðurinn sem er kominn til Þróttar því Ingunn Haraldsdóttir og Sæunn Björnsdóttir eru einnig mættar. Nik fagnar þeirra komu.

„Við vorum mjög ánægð með Sæunn síðastliðið ár þar sem hún var á láni hjá okkur. Þess vegna vildum við semja við hana. Hún er með eiginleika sem okkur vantaði og við erum glöð að hún sé komin alfarið yfir. Ingunn mun kom inn með gæði, reynslu og meiri samkeppni í vörninni. Við vorum að leitast eftir því að fá hana áður en hún meiddist illa, svo við erum ánægð að fá hana inn núna."

„Við erum búin að bæta við leikmannahópinn sem var ekkert sérstaklega breiður á síðustu leiktíð. Að vera með aukna breidd getur bara verið jákvætt."

Edda á ekki að vera í markmannshönskum á æfingum
Þróttarar eru enn að skoða leikmannamarkaðinn og það er von á fleiri leikmönnum í Laugardalinn.

„Við stefnum á að bæta við fleiri leikmönnum. Við þurfum að fá inn nokkra byrjunarliðsleikmenn og við þurfum einnig að fá varamarkvörð fyrir Írisi," segir Nik en aðstoðarþjálfarinn, Edda Garðarsdóttir, var mikið í hlutverki varamarkvarðar á síðustu leiktíð.

„Edda er alltaf með markmannshanskana á æfingum og það á ekki að vera þannig. Hún þarf að hætta því, það væri líka betra fyrir hana."

Þróttur hafnaði í fjórða sæti á síðustu leiktíð. Hvað er markmiðið fyrir næstu leiktíð? „Við erum ekki enn komin á þann stað að vera í titilbaráttu en að vera spurður að því sýnir bara hversu langt þessi hópur hefur komist á þremur árum í efstu deild. Við erum með okkar markmið en það væri spennandi að vera í Meistaradeildarbaráttu aftur," segir Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar.
Athugasemdir
banner
banner
banner