Komum okkur bara beint að efninu: Það er kominn tími til að gerð verði önnur tilraun til að festa Bundesliguna í sessi í íslensku sjónvarpi.
Langt er síðan þýski boltinn var í boði á íslenskri sjónvarpsstöð. Ástæðan fyrir því að hann var tekinn af dagskrá er væntanlega sú sama og með flest annað sjónvarpsefni sem hverfur af skjánum. Efnið dýrt og áhorfið ekki í samræmi við verðið.
Langt er síðan þýski boltinn var í boði á íslenskri sjónvarpsstöð. Ástæðan fyrir því að hann var tekinn af dagskrá er væntanlega sú sama og með flest annað sjónvarpsefni sem hverfur af skjánum. Efnið dýrt og áhorfið ekki í samræmi við verðið.
Ég viðurkenni það fúslega að í gegnum tíðina hef ég síður en svo getað kallað mig einhvern aðdáanda þýska boltans og ég sat ekki límdur fyrir framan RÚV þegar Lárus Guðmundsson lýsti leikjum af mikilli innlifun og þekkingu.
Áhugi minn á þýska boltanum hefur vaknað síðustu mánuði og ég hef á tilfinningunni að það eigi við um fleiri. Það er bara svo margt sem er heillandi við þessa deild og hvernig Þjóðverjar meðhöndla fótboltann í dag.
Englendingar þurftu að kyngja því að Pep Guardiola ákvað á endanum að velja FC Bayern München. Margir enskir blaðamenn töluðu um að þar með hefði þýska deildin í raun skorað mark gegn þeirri ensku. Vissulega er Guardiola ekki að taka mikla áhættu með því að taka við stórliði Bayern enda vill hann forðast það að enda á sama stað og Frank Rijkaard.
Það að Guardiola, eftirsóttasti þjálfari heims, velji þýska boltann er óneitanlega heilmikil viðurkenning fyrir deildina þar í landi.
Eins og allir fótboltaáhugamenn vita er stemningin á áhorfendapöllum Þýskalands eins og best verður á kosið í Evrópu. Það er engin tilviljun. Í Þýskalandi er þess gætt að félögin séu ekki bara að ala upp leikmenn heldur einnig stuðningsmenn. Stuðningsmenn sem fá það á tilfinninguna að þeir eigi eitthvað í liðinu, sem þeir gera.
Á tímum þar sem auðkýfingar nota mörg fótboltalið sem leikföng eru reglur í Þýskalandi sem segja að félögin verði að vera í meirhlutaeigu stuðningsmanna. Þá eru strangar reglur varðandi fjárhagslegan rekstur félaga.
Miðaverði er haldið í hófi og námsmönnum og lágtekjufólki gefst kostur á að kaupa miða í stæði. Það er margt heillandi við þýska boltann og margt sem aðrar deildir mættu taka til fyrirmyndar. Það er uppgangur í þýska boltanum þó vissulega þurfi þýskt lið að fara að vinna Meistaradeildina aftur til að setja jarðaberið ofan á kökuna.
Ég neita því ekki að það er ákveðin áhætta fyrir sjónvarpsstöð að kaupa þýska boltann en það væri gaman að fá þó ekki væri nema einn leik í hverri viku. Nú þegar nánast allir leikir ensku úrvalsdeildarinnar eru sýndir, allir leikir Barcelona og Real Madrid og ítalski boltinn mættur í vefútsendingu er bara eitt púsl eftir!
Efnið er dýrt en varan er góð, Ég vil sjá aðra tilraun gerða, hver er til?
Athugasemdir