Greenwood eftirsóttur - Isak til PSG? - Chelsea vill gera skiptidíl við Inter
   sun 17. júlí 2016 15:25
Elvar Geir Magnússon
„Böðvar verður að hætta þessum stælum"
Tryggvi Guðmunds var á ÍBV - FH
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Flóki og Böðvar Böðvarsson.
Kristján Flóki og Böðvar Böðvarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Derby Carrillo, markvörður ÍBV.
Derby Carrillo, markvörður ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var ekki mikill gæðamunur á liðunum í þessum leik," segir Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net um Pepsi-deildina. Tryggvi var í Vestmannaeyjum í gær þar sem ÍBV og FH gerðu 1-1 jafntefli en bæði mörkin komu í seinni hálfleik.

„Fyrri hálfleikur var mjög jafn en það voru smá læti og leiðindi milli manna. Menn voru að kljást, það komu ljótar tæklingar og menn voru að gera hluti sem þeir eiga ekki að gera inni á fótboltavellinum. Ég vil meina að Sindri Snær hafi svolítið byrjað þetta en svo verður Böðvar Böðvarsson að hætta þessum stælum," segir Tryggvi um ungan leikmann FH-inga.

„Böðvar fiskaði Tufa í Víkingi R. af velli í síðasta leik með því að ýta honum þrívegis, svo fær hann nett olnbogaskot og kvartar eins og hann sé saklausasti maður í heimi. Hann lenti í líku atviki í gær en ég var ánægður með Davíð Þór Viðarsson sem hljóp til Bödda og eiginlega bara skammaði hann og sagði honum að hætta þessari vitleysu. Böðvar er góður í fótbolta og ég myndi halda að hann myndi ekki vilja fá svona leiðindastimpil á sig."

Auðvitað markverðinum að kenna
FH-ingar komust yfir á 51. mínútu eftir óskiljanlegt úthlaup Derby Carrillo, markvarðar Eyjamanna.

„Í seinni hálfleik fannst mér FH vera farið að stýra þessu meira. Þó ekki mikið hafi gerst fram á við voru FH-ingar meira með boltann. Svo kemur þetta furðulega mark hjá FH-ingum þar sem Jeremy Serwy, sem hafði varla skilað bolta á samherja fram að þessu, náði að skora. Serwy tók margar rangar ákvarðanir en fékk svo mark á silfurfati," segir Tryggvi.

„Auðvitað er þetta markverðinum að kenna. Við höfum séð það að hann er góður í marki, hann átti hörkuleik gegn Stjörnunni í bikarnum og kom sínu liði áfram. En upp á síðkastið hefur hann of mikið verið að búa til sirkus og gera dýrkeypt mistök. Ég átta mig ekki á þessu úthlaupi hjá honum."

FH ætti að skoða markaðinn
Tryggvi segist hafa búist við því að Íslandsmeistararnir myndu landa 1-0 sigri en á 85. mínútu jafnaði ÍBV. Nýr danskur sóknarmaður liðsins, Sören Andreasen, átti stóran þátt í markinu.

„FH-ingar slökktu aðeins á sér og sofnuðu á verðinum. Benedikt Októ Bjarnason kom af bekknum hjá ÍBV, við höfum ekki séð til hans lengi en hann átti góða rispu upp kantinn og gaf fyrirgjöf sem skapaði mark. Þetta var skipting sem kom nokkuð á óvart en Benedikt þakkaði fyrir hana," segir Tryggvi en fjölmiðlar skráðu markið fyrst á Sören.

„Auðvitað er alltaf gaman að geta sett mark á leikmann sem er að spila sinn fyrsta leik en Erlendur Eiríksson dómari skráði þetta sem sjálfsmark Bergsveins Ólafssonar."

Tryggvi segir að niðurstaðan hafi verið sanngjörn og úrslitin klárlega skemmtileg fyrir hlutlausa áhorfendur. Atli Guðnason verður frá í tvær til þrjár vikur eftir að hafa rifbeinsbrotnað í leiknum og telur Tryggvi að FH ætti að skoða möguleika á að styrkja sig sóknarlega í glugganum.

„Auðvitað var Heimir að hvíla nokkra leikmenn vegna álags í þessum leik í gær. Atli meiðist og Kristján Flóki var ekki að finna sig í þessum leik. Ég held að FH ætti að leita að liðsstyrk í glugganum þó það sé erfitt svona einn, tveir og bingó. Atli Guðna er markahæsti leikmaður Íslands í Evrópukeppni og er með mikla reynslu. Það er vont að missa hann fyrir þennan slag á miðvikudaginn," segir Tryggvi en FH leikur seinni leik sinn gegn írska liðinu Dundalk í Kaplakrika á miðvikudag. Fyrri leikurinn endaði 1-1.

Tryggvi ætlar að skella sér á fallbaráttuslag Fylkis og KR í kvöld en spennan í Pepsi-deildinni er mikil.

„Þetta er veisla og það geta nánast allir orðið meistarar. Það er gaman fyrir okkur sem erum að fylgjast með þessu hversu jafnt þetta er. " segir Tryggvi Guðmundsson.

Leikir kvöldsins í Pepsi-deildinni
19:15 Víkingur Ó.-Stjarnan (Ólafsvíkurvöllur)
19:15 ÍA-Valur (Norðurálsvöllurinn)
19:15 Fylkir-KR (Floridana völlurinn)
20:00 Fjölnir-Breiðablik (Extra völlurinn)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner