Renato Sanches, leikmaður Paris Saint-Germain í Frakklandi, er líklega að snúa aftur til uppeldisfélagsins Benfica á næstu dögum, en þetta fullyrðir portúgalski miðillinn Record.
Sanches, sem er 26 ára gamall, var talinn efnilegasti miðjumaður heims fyrir átta árum síðan.
Tímabilið 2015-2016 var hans fyrsta og eina tímabil með aðalliði Benfica, en hann var valinn besti nýliðinn og var valinn í landsliðshóp Portúgals fyrir Evrópumótið. Þar spilaði hann stóra rullu er Portúgal vann mótið.
Bayern München keypti hann um sumarið en aldrei náði hann að lifa upp til þeirra væntinga sem gerðar voru til hans. Hann var sendur á lán til Swansea þar sem allt gekk á afturfótunum.
Hann gekk í gegnum endurnýjun lífdaga hjá Lille. Þá var hann einn besti miðjumaður frönsku deildarinnar og hjálpaði liðinu að vinna hana tímabilið 2020-2021.
Sanches var keyptur til Paris Saint-Germain árið 2022 og tók eitt tímabil með liðinu áður en hann var sendur til Roma á láni. Meiðsli héldu honum utan vallar stóran hluta tímabilsins og ákvað ítalska félagið ekki að nýta kaupréttinn.
Portúgalinn fór því aftur til PSG í sumar. Record segir að hann sé á förum frá félaginu á næstu dögum, en hann verður líklega hluti af kaupum PSG á Joao Neves frá Benfica.
Samkvæmt blaðinu er Neves á leið til Frakklands og mun Sanches fara á láni til Benfica. Það er vonandi að Sanches takist að finna sitt gamla form hjá uppeldisfélaginu.
Athugasemdir