Gyökeres í forgangi hjá Arsenal - Sargent orðaður við Brentford - City og Dortmund hafa áhuga á Camarda
   mið 17. ágúst 2022 16:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Fengu ekki grænt ljós frá Harvard fyrir úrslitaleik í Þrándheimi
Breiðablik spilar við Rosenborg á morgun.
Breiðablik spilar við Rosenborg á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selma Sól í leik með Breiðabliki í Meistaradeildinni í fyrra.
Selma Sól í leik með Breiðabliki í Meistaradeildinni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda er ekki með.
Áslaug Munda er ekki með.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heiðdís Lillýardóttir.
Heiðdís Lillýardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik spilar á morgun við liðið sem er í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar, Rosenborg, í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þetta er úrslitaleikur, en tapi Blikar leiknum þá eru þær einfaldlega úr leik í keppninni.

„Ferðalagið út gekk mjög vel. Við ferðuðumst út í gær, millilentum í Osló og komum hérna um kvöldmatarleytið í gærkvöldi," segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net.

„Öll aðkomuliðin eru á sama hóteli sem er á Lerkendal, heimavelli karlaliðsins í Rosenborg. Hótelið er mjög fínt. Það er smá spölur í völl kvennaliðsins. Það er gott íslenskt sumarveður hérna, smá rigning en logn og gott veður. Allar aðstæður eru til fyrirmyndar."

Þegar Ásmundi var tjáð hvernig veðrið væri í höfuðborginni á Íslandi í dag, þá hló hann og sagði: „Við erum laus við rokið allavega."

Liðið er að gista á hóteli sem er alveg við Lerkendal völlinn, glæsilegan heimavöll karlaliðs Rosenborg en þar verður ekki spilað á morgun.

„Öll okkur aðstaða er eiginlega bara í vallarhúsinu. Í fundarherberginu ertu bara að horfa út á völlinn."

Af hverju fer leikurinn á morgun ekki fram á Lerkendal?

„Það er frábær spurning. Kvennalið Rosenborg spilaði einn leik hér um daginn gegn Brann og þá komu 10 þúsund áhorfendur, en þær spila vanalega á leikvangi sem heitir Koteng Arena," segir Ási en sá völlur er með pláss fyrir um þúsund manns. Það hefði verið gaman að sjá leikinn fara fram á Lerkendal á morgun en Blikarnir fá engu ráðið um það.

Rosenborg sigurstranlegri
Blikar eru í öðru sæti Bestu deildarinnar sem stendur. Ási býst við að Rosenborg sé sigurstranlegri aðilinn fyrir fram, en Blikar ætla að gera allt sem í sínu valdi stendur til að vinna leikinn. Þær ætla að skilja allt eftir á vellinum.

„Rosenborg er með öflugt lið. Þær eru væntanlega sigurstranglegri, en við förum óhræddar inn í þennan leik og ég tel okkur eiga möguleika á að vinna. Við stefnum að sjálfsögðu á það," segir Ási.

„Við erum búin að skoða mikið af klippum og höfum sent menn á leiki hjá þeim til þess að fara yfir þeirra lið og þeirra leik. Við reynum að finna leiðir og lausnir gegn þeim. Þetta er gríðarlega vel skipulagt lið. Þær spila skipulagaðan og góðan varnarleik, og eru fljótar upp að refsa. Þær eru heilt yfir öflugt lið."

Í liði Rosenborg er íslenska landsliðskonan Selma Sól Magnúsdóttir. Hún lék með Breiðabliki áður en hún fór til Noregs í byrjun þessa árs.

„Það er mjög sérstakt að mæta Selmu, bæði skemmtilegt og sérstakt. Hún er búin að spila gríðarlega vel með Rosenborg undanfarið og verið einn af þeirra lykilmönnum. Við þurfum að passa okkur á henni eins og öðrum. Hún þekkir ágætlega inn á okkur og við inn á hana. Það verður spennandi að takast á við hana og mæta henni."

Reyndu að hafa Áslaugu Mundu og Hildi í þessum leikjum
Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur, en Blikar verða án lykilmanna. Alexandra Jóhannsdóttir er farin aftur út eftir stuttan lánssamning, Hildur Antonsdóttir er farin út í atvinnumennsku og þá eru Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir farnar aftur út í Harvard-háskólann í Bandaríkjunum þar sem þær stunda nám og spila með skólaliðinu.

Þetta hefur verið mikið púsluspil fyrir þjálfara Breiðabliks í sumar þar sem leikmenn hafa verið að koma og fara. Meiðsli hafa líka sett strik í reikninginn.

„Jú auðvitað er þetta svekkjandi, en þetta er eitthvað sem við vissum. Við vissum með töluvert góðum fyrirvara að Hildur Antons væri á leið út og Alexandra kom bara fyrri hlutann," sagði Ásmundur.

„Áslaug Munda og Hildur Þóra, við vissum stöðuna á þeim en við reyndum að semja við þau út í Bandaríkjunum hvort þær gætu verið viku lengur en reglurnar í háskólaboltanum eru strangar. Þær þurftu að vera mættar á þessum tíma og það var engin leið fyrir okkur."

Áslaug Munda og Hildur Þóra eru við nám í Harvard sem er einn virtasti háskóli í heimi.

„Það hafa líka bæst við meiðsli hjá Telmu markverði, Ástu fyrirliða og Heiðdísi (Lillýardóttur). Það hefur truflað okkur. Heiðdís er að koma til baka og verður væntanlega klár á morgun. Hún er komin inn, en Ásta Eir er líklega frá út tímabilið og það er óljóst nákvæmlega Telma verður frá."

„Þetta einfaldar ekkert lífið, en við tökum á þessu eins vel og við getum - við reynum að byggja þær upp sem eru að koma inn og hafa þær tilbúnar - en vissulega er þetta ekki óskastaða."

Fóru í riðlakeppni síðast
Breiðablik skrifaði söguna í fyrra með því að vera fyrsta íslenska félagsliðið sem fer í riðlakeppni í Evrópu. Það verður erfiðara að gera það núna en það er ekkert útilokað í þessu.

„Stefnan er auðvitað alltaf að ná eins langt og mögulegt er. Við sjáum möguleika í þessu verkefni á morgun en þar sem liðið lenti í öðru sæti í fyrra þá er leiðin töluvert erfiðari," segir Ási.

„Það munar miklu að lenda í fyrsta og öðru sæti í deildinni hvað varðar leið í Meistaradeildinni. Þetta er klárlega erfiðari leið en við gefumst ekki upp fyrir fram. Við munum gera allt sem við getum til að fara eins langt og mögulegt er. Þetta er bara úrslitaleikur á morgun og það er að duga að drepast. Það er bara þannig, sigurliðið fer í annan úrslitaleik á sunnudaginn. Liðið sem tapar fer í aukaleik á sunnudag en á ekki möguleika á að komast lengra. Svona eru reglurnar bara."

Ef Breiðablik vinnur á morgan þá spila þær annan úrslitaleik á sunnudaginn um að komast á næsta stig forkeppninnar. Það er vonandi að það takist hjá þeim. Fótbolti.net mun fjalla vel um leikinn á morgun.

Sjá einnig:
Ekki reiknað með því að fyrirliði Blika spili meira á tímabilinu
Athugasemdir
banner
banner
banner