Real Madrid setur Alexander-Arnold í forgang - Barella orðaður við mörg félög - Tekur Montella við af Ten Hag? - Liverpool horfir á varnarmann Sevilla
banner
   fim 17. október 2024 12:37
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Árni skilur reiði stuðningsmanna: Uppgangur í ÍR en það tekur lengri tíma
Lengjudeildin
Árni hefur verið þjálfari ÍR frá miðju sumri 2022.
Árni hefur verið þjálfari ÍR frá miðju sumri 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍR átti frábært tímabil sem nýliði í Lengjudeildinni.
ÍR átti frábært tímabil sem nýliði í Lengjudeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fólkið í ÍR er búið að gera fáránlega flotta hluti og spennandi tímar framundan.'
'Fólkið í ÍR er búið að gera fáránlega flotta hluti og spennandi tímar framundan.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni og Jói framlengdu samninga sína við ÍR fyrir rúmum mánuði síðan.
Árni og Jói framlengdu samninga sína við ÍR fyrir rúmum mánuði síðan.
Mynd: ÍR
Sölvi Haraldsson, blóðheitur.
Sölvi Haraldsson, blóðheitur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Með fyrirliðabandið hjá ÍR.
Með fyrirliðabandið hjá ÍR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Fylki á sínum tíma.
Í leik með Fylki á sínum tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Skrifaði undir hjá Fylki í gær.
Skrifaði undir hjá Fylki í gær.
Mynd: Knattspyrnudeild Fylkis
„Fylkir hafði samband við ÍR og spyrja hvort þeir geti fengið mig yfir. Svo fer þetta að snúast og félögin komast að niðurstöðu hvernig þau leysa það milli sín og svo samdi ég við Fylki," segir Árni Freyr Guðnason sem í gær var tilkynntur sem nýr þjálfari meistaraflokks karla hjá Fylki.

Árni, sem er 38 ára, er FH-ingur en lék á sínum einnig með Reyni Sandgerði, ÍR, Fylki og ÍH. Sem meistaraflokksþjálfari hefur hann þjálfað ÍH, meistaraflokk kvenna hjá FH og karlalið ÍR í rúmlega tvö og hálft tímabil.

Hann fer til Fylkis eftir að hafa skrifað undir framlengingu á samningi við ÍR í síðasta mánuði. Þrátt fyrir það var hann strax spenntur þegar möguleikinn að taka við Fylki kom upp.

„Já, ég varð strax spenntur. Ég var náttúrulega nýbúinn að semja við ÍR sem gerir þessa ákvörðun skrítnari, var búinn að ákveða að vera þar áfram. En þegar þetta kom þá var einhver tilfinning sem sagði mér að ég ætti að skoða þetta og þegar ég gerði það þá fannst mér þetta vera rétt skref á mínum ferli."

Fylkir verið lengi ofar en ÍR
Af hverju er rétta skrefið að fara núna frá ÍR í Fylki?

„Fylkir hefur verið í efstu deild í langan tíma. Við fórum með ÍR liðið í fyrra í fyrsta skiptið í mörg ár upp í Lengjudeild. Þótt liðin verði í sömu deild næsta sumar þá hefur Fylkir verið ofar langoftast á síðustu árum."

„Ég ætla ekki að segja stærri klúbbur, það er ekki rétta orðið yfir allt félagið, en fótboltalega séð hefur Fylkir verið ofar. Það er uppgangur í ÍR en það tekur bara lengri tíma, mér fannst bara tímabært að prófa nýja hluti."


Frábær aðstaða hjá Fylki
Er umgjörðin hjá Fylki betri en hjá ÍR?

„Umgjörðin hjá því sem klúbbarnir eru ekki að búa til sjálfir er betri hjá Fylki. Völlurinn í Árbæ er frábær, tvö gervigrös og allt það. Umgjörðin í kringum liðið; leikmenn og þjálfara hjá ÍR er mjög góð, en vallarmálin... það er ónýtt gervigras sem þarf að gera eitthvað í. Það er verið að bíða eftir Reykjavíkurborg og ég held það sé ekkert mikið til í sjóðum þar ef kennarar eru að fara í verkfall og það eru að koma kosningar, það hefur allt áhrif. Fólkið í ÍR er búið að gera fáránlega flotta hluti og spennandi tímar framundan."

Stuðningsmenn reiðir en leikmenn sýna skilning
Er erfitt að kveðja ÍR á þessum tímapunkti?

„Að sjálfsögðu. Það var mikil ánægja með það sem við vorum að gera, maður fékk allavega að heyra það. Ég væri að ljúga að þér ef ég væri ekki búinn að sjá einhver skilaboð og hvað menn eru að segja á netmiðlum. Þeir sem voru mínu helstu stuðningsmenn eru ekkert rosalega ánægðir með mig núna, en það er bara eins og gengur og gerist í þessu."

„Ég talaði við liðið í gær, leikmennina mína hjá ÍR, og þeir flestir skildu þetta og óskuðu mér góðs gengis. Þetta er eins og lífið, það tekur stundum breytingum. Það þarf bara að halda áfram."


Blóðheitir stuðningsmenn
Það var mikil ást í garð þeirra Árna og samstarfs manns hans, Jóhanns B. Guðmundssonar, frá stuðningsmönnum eftir mikla velgengni hjá ÍR liðinu síðustu ár. Hvernig er svo að sjá viðbrögðin eftir tíðindin í gær?

„Þeir virtust allavega vera ánægðir með það sem við vorum að gera, það er klárt. Þetta eru blóðheitir menn, Sölvi Haralds og félagar. Ég hringdi í Sölva í gær og talaði aðeins við hann. Þetta eru strákar sem hafa hjálpað okkur, Sölvi t.d. hefur verið í kringum liðið og hjálpað okkur mikið, með samfélagsmiðla og allt þetta, hann var einn af okkur. Stuðningsmennirnir voru geggjaðir í sumar og þegar það er, þá er kannski erfiðara þegar slitnar upp úr sambandinu og annar aðilinn fer, þá er ekki ánægja með það."

„Ég skil það vel, mér finnst það líka leiðinlegt, fannst geggjað að vera þarna. En mér fannst vera kominn tími til að breyta."


Býstu við miklum hita þegar þú mætir með Fylkisliðið í Breiðholt?

„Örugglega, ég held þeir verði ekkert rosalega ánægðir. Ætli það sé ekki bara gott að það sé langt í leikinn?"

Jói væri fyrsti kostur
Var eitthvað samtal um að þú og Jóhann færuð báðir til Fylkis?

„Fylkir talaði bara við mig. Ég og Jói erum mjög góðir vinir og unnum saman hjá FH áður en við fórum í ÍR. Við höfum alltaf verið saman í teymi (báðir aðalþjálfarar) frá því að við tókum saman við ÍR. Auðvitað kom umræða um að Jói kæmi með. Ef að það hefði verið hægt, og væri hægt, þá væri hann minn fyrsti kostur í að vera með mér. Við höfum tekið spjall okkar á mili og hann er alveg rólegur. Hann er þjálfari ÍR í dag og ég get ekki svarað fyrir hvað hann ætlar að gera. Það er náttúrulega ekki kominn aðstoðarþjálfari og við þurfum að sjá hvað gerist. Eins og staðan er þá er hann þjálfari ÍR og þeir munu væntanlega taka eitthvað spjall hvernig hann vill gera þetta eftir að þetta tveggja þjálfara kerfi klofnaði. Það er ekki gert í neinum leiðindum, við erum alveg góðir og höfum rætt saman margoft í vikunni. Hann er úti í Aserbaísjan sem stendur sem gerir þetta aðeins erfiðara."

Þegar þú verður spurður, er þá Jói þinn fyrsti kostur sem aðstoðarmaður?

„Við höfum ekkert mikið rætt það, við ræddum bara um að klára þetta og svo myndum við gefa Rúnari og Brynjari Birni tíma til að klára tímabilið og sjá svo hvað gerist þegar tímabilið er búið. Fylkismenn vildu klára þessa ráðningu núna, geta tilkynnt leikmannahópnum að það væri kominn nýr þjálfari. Svo bara skoðum við aðstoðarþjálfaramálin og fleiri í starfsteyminu þegar nær dregur."

Langódýrasta liðið í deildinni
Hver var hápunkturinn á tímanum hjá ÍR?

„Klárlega að komast í umspilið í Lengjudeildinni. Fyrsta skrefið var auðvitað að komast upp um deild og við vorum svo með það markmið að halda okkur í deildinni. Þegar deildin byrjar að spilast þannig að það var jafntefli í öllum leikjum þá gefur auga leið að hver sigur skiptir meira máli. Þegar það voru nokkuð margar umferðir eftir og við vorum öruggir með að falla ekki þá settum við einbeitinguna á að komast í umspilið. Við ætluðum að fara alla leið. Við vorum svona 25 mínútum í lélegu mómenti á móti Keflavík frá því. Við lendum 0-3 undir, náum að koma til baka í seinni leiknum en það var bara ekki nóg."

„Þetta er geggjaður hópur. Það er búinn að vera einhver umræða um það, mikið talað um hvað liðin kosta mikið. Ég held að við getum alveg fullyrt það að við vorum langódýrasta liðið í þessari deild. Að ná þessum árangri er alveg frábært."


Í DNA-inu að ætla alltaf að vinna
Árni var leikmaður Fylkis 2012 og 2013. Hvernig er að vera kominn aftur í Fylki?

„Ég er bara spenntur, þetta er nýtt verkefni þótt þetta sé sama blessaða íþróttin. Það tekur tíma að koma á nýjan stað og móta sinn fótbolta. Það er spennandi vetur framundan og vonandi verður þetta gott tímabil á næsta ári."

Er klárt markmið að fara beint upp úr Lengjudeildinni?

„Við höfum ekki rætt það, er bara búinn að hitta stjórnarmenn og ræða um klúbbinn. Það er bara í mínu DNA að fara alltaf til þess að vinna. Ef við vinnum alla leikina þá hljótum við að fara upp, en það þarf margt að gerast. Þetta er erfið deild, bara eitt lið sem fer beint upp. Við þurfum að halda vel á spilunum og ég get svarað þér seinna hver markmiðin eru," segir Árni.
Athugasemdir
banner
banner