Undankeppninni fyrir EM U21 árs landsliða er svo gott sem lokið og eru Strákarnir okkar aðeins hársbreidd frá lokamótinu. Þeir þurfa að treysta á það að Svíar sigri ekki á útivelli gegn toppliði Ítalíu í lokaumferðinni
Ítalía er búið að tryggja sig á EM með því að vinna riðilinn. Sextán lönd komast á lokamótið og eru fimmtán þeirra þegar búin að tryggja sér farmiðann, öll nema Ísland.
Ógnarsterkt lið Englands er löngu búið að tryggja sér miða en í dag unnu ungstirnin stórsigur á sterku liði Albaníu, sem endar í þriðja sæti eftir Austurríki.
Callum Hudson-Odoi, Eddie Nketiah (2), Justin James og Jamal Musiala gerðu mörkin í 5-0 sigri. Frakkland, Tékkland, Rússland, Spánn, Holland, Danmörk og Þýskaland eru einnig búin að tryggja sig á lokamótið með því að sigra sína riðla, rétt eins og Ítalir.
Slóvenía og Ungverjaland halda mótið og fá því báðar þjóðirnar þátttökurétt. Sviss og Portúgal eru stigahæstu liðin í öðru sæti og þá eru aðeins þrjú pláss eftir á lokamótinu.
Liðið sem endar í öðru sæti í íslenska riðlinum, hvort sem það verður Ísland eða Svíþjóð, fær einnig farmiða á lokakeppnina ásamt Króatíu og Rúmeníu, sem komast áfram á markatölu.
Króatar og Rúmenar náðu í 20 stig í sínum riðlum, rétt eins og Pólverjar sem eru þó með lakari markatölu. Aðeins einu marki munar á markatölu Pólverja og Rúmena.
EM U21:
Þýskaland
Frakkland
Spánn
Ítalía
England
Portúgal
Holland
Króatía
Danmörk
Sviss
Rússland
Tékkland
Rúmenía
Ungverjaland
Slóvenía
Ísland eða Svíþjóð
Athugasemdir