Camavinga og Bastoni orðaðir við Liverpool - Ruben Neves á óskalista Man Utd - Framtíð Frank í óvissu
   sun 18. janúar 2026 18:16
Ívan Guðjón Baldursson
Gummi gerir tveggja ára samning við ÍA (Staðfest) - „Stórt og mikilvægt"
Mynd: ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Þórarinsson er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við ÍA og mun því leika í Bestu deildinni á næstu misserum eftir tæplega 14 ára fjarveru.

   18.01.2026 17:28
Gummi Tóta að skrifa undir hjá ÍA


Gummi lék síðast með ÍBV í efstu deild sumarið 2012 og hefur síðan þá verið atvinnumaður í fótbolta erlendis. Hann hefur komið víða við á ferlinum og unnið ýmsa titla með félagsliðum sínum. Hann lék síðast fyrir FC Noah í armensku toppbaráttunni en þar áður lék hann á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum og á Grikklandi.

Gummi vann bæði deild og bikar í Armeníu og Noregi auk þess að vinna MLS deildina með New York City FC.

Þetta eru gríðarlega stórar fréttir fyrir ÍA og íslenska boltann í heild sinni þar sem Gummi verður vafalítið meðal gæðamestu leikmanna deildarinnar. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net valdi Gummi ÍA framyfir FH eftir viðræður við bæði félög.

Hann er afar fjölhæfur leikmaður sem hefur stærsta hluta ferilsins leikið sem vinstri bakvörður en er einnig hæfileikaríkur miðjumaður.

Gummi á 15 A-landsleiki að baki fyrir Ísland eftir að hafa verið mikilvægur hlekkur í U19 og U21 landsliðunum.

Skagamenn hafa verið í mikilli sókn á leikmannamarkaðinum í vetur. Gummi er þriðji leikmaðurinn sem bætist við hópinn hjá ÍA eftir komu Gísla Eyjólfssonar frá Halmstad og Rafaels Mána Þrastarsonar úr röðum Fjölnis.

„Það er stórt og mikilvægt fyrir Knattspyrnufélagið ÍA að Guðmundur hafi valið ÍA og Akranes sem næsta áfangastað á sínum ferli. Koma hans styrkir liðið og félagið í heild sinni og mun nýtast vel á komandi árum," segir meðal annars í tilkynningu frá Skaganum.


Athugasemdir