„Þetta gerðist bara í gærkvöldi og við erum ekki komnir þangað að geta svarað því hvort við ætlum að fá inn annan markmann. Við erum ekkert komnir þangað að ræða það, en við þurfum allavega að hafa varamarkmann, hvort sem við leysum það innan okkar raða eða náum í nýjan, það er bara samtal sem fer í gang," segir Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, við Fótbolta.net.
KA varð fyrir áfalli í gær þegar Jonathan Rasheed, nýr markmaður liðsins, sleit hásin á æfingu liðsins á Greifavelli.
KA varð fyrir áfalli í gær þegar Jonathan Rasheed, nýr markmaður liðsins, sleit hásin á æfingu liðsins á Greifavelli.
Hvernig var upplifunin í gær, sást strax að þetta væri alvarlegt?
„Hann stendur í markinu, ætlar að fara áfram og þá heyrist bara smellur. Strákarnir í kring heyrðu bara smellinn þegar hásinin fór. Það var engin snerting eða neitt, hann bara steinlá. Hann hafði slitið hásinina á hinum fætinum fyrir 5-6 árum og hann þekkti tilfinninguna. Þetta var svo staðfest á sjúkrahúsinu."
Það er ljóst að Rasheed, sem er með reynslu sem aðalmarkmaður í sænsku úrvalsdeildinni, verður frá næsta hálfa árið hið minnsta og mun ekki spila með KA á tímabilinu. Félagið þarf því að leita annað eftir samkeppni við Steinþór Má Auðunsson.
Hópurinn mun styrkjast
Haddi var spurður almennt út í hópinn hjá KA.
„Mér líst mjög vel á þá stráka sem eru hérna, en það er ekkert launungarmál að hópurinn mun styrkjast. Við erum núna með einhverja níu menn meidda, Bjarni Aðalsteins er staðsettur í Danmörku og kemur seint, Rodri er staðsettur á Spáni, var í aðgerð á öxl og kemur seint. Akkúrat núna, á staðnum, væri ég til í að það væru fleiri leikmenn heilir á æfingu hjá mér. Þegar við erum með flesta heila þá erum við á ágætis stað. Við verðum með flott lið þegar það verður flautað til leiks. Auðvitað væri ég til í að geta undirbúið liðið betur, samstillt okkur og æft meira allir saman til að vera 100% tilbúnir í mótið. En við verðum með flott lið þegar mótið byrjar."
KA hefur misst sex reynslumikla leikmenn úr leikmannahópi sínum og ef Rasheed er frátalinn einungis fengið inn tvo; þá Guðjón Erni Hrafnkelsson frá ÍBV og Ingimar Stöle úr láni frá FH. Birgir Baldvinsson verður reyndar allt tímablið með KA sem nánast má titla sem nýjan leikmann því hann missti úr stóran hluta síðasta sumar.
Veistu af einhverjum leikmönnum sem gætu verið að koma?
„Við erum reglulega að skoða og við munum bæta við okkur leikmönnum. Auðvitað eru alltaf einhverjir leikmenn sem við erum að heyra í og skoða, en það er enginn sem er að fara skrifa undir eftir hálftíma og ég get rætt um. Við erum að skoða og við vitum að við þurfum að styrkja hópinn. Við Steini (Steingrímur Örn Eiðsson) erum búnir að sitja fund með stjórninni og ræða hvað við ætlum að gera. Það er ekkert launungarmál að við munum styrkja hópinn með gæðaleikmönnum. Við verðum með sterkt lið þegar við byrjum. Nú er það starf okkar þjálfaranna að undirbúa þá sem eru fyrir hérna. Vonandi fara sem flestir af þessum sem eru meiddir að koma til baka. Þetta er ótrúlega mikill fjöldi af furðulegum meiðslum, eitthvað sem við höfum ekki lent í síðustu ár. Ég vona að ég geti haft þá flesta til taks 4-5 vikum fyrir mót, þetta virkar ekki þannig að maður smelli einum fingri og allt er þá orðið fullkomið, við þurfum að spila okkur saman."
Viltu vera með stærri hóp en í fyrra af fullorðnum leikmönnum þar sem KA er líka að spila í Evrópu?
„Nei, ég vil helst vera með mjög svipaðan fjölda. Við erum að fara í eina keppni í viðbót í sumar og ég var kannski með aðeins of marga í fyrra þegar allir voru heilir. Það fóru strákar frá okkur, fullorðnir menn með feril, Sveinn Margeir yngstur af þeim, engir unglingar. Ég myndi vilja fá nokkra í staðinn og vera með svipaðan hóp og í fyrra, þá yrði ég ánægður," segir Haddi.
KA fer í æfingaferð í byrjun mars, ferðinni er heitið til Alicante líkt og síðustu ár.
Athugasemdir