Chelsea tilbúið að selja Enzo - Man Utd vill Gomes - Anderson og Wharton líka á óskalista United
   mán 19. janúar 2026 16:40
Kári Snorrason
Viðtal
Kveður Stjörnuna eftir tíu ára dvöl - „Tækifæri sem erfitt var að segja nei við“
Hilmar er nýr aðstoðarþjálfari KR.
Hilmar er nýr aðstoðarþjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er maður sem mig langar til að vera í kringum og fá að læra af.“
„Þetta er maður sem mig langar til að vera í kringum og fá að læra af.“
Mynd: Eva Rós Ólafsdóttir
Hilmar kom að leikgreiningu Stjörnunnar eftir að hann sleit krossband árið 2022.
Hilmar kom að leikgreiningu Stjörnunnar eftir að hann sleit krossband árið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Í sumar hafði ég engar taugar til KR en horfði á liðið vegna þess að það var alltaf skemmtilegt áhorfs.“
„Í sumar hafði ég engar taugar til KR en horfði á liðið vegna þess að það var alltaf skemmtilegt áhorfs.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar Árni Halldórsson er nýr aðstoðarþjálfari KR og verður hann aðstoðarmaður Óskars Hrafns Þorvaldssonar. Hann tekur við starfinu af Theódóri Elmari Bjarnassyni sem hætti eftir síðasta tímabil.

Um er að ræða fyrsta þjálfunarstarf Hilmars í meistaraflokki en hann lagði skóna á hilluna fyrir rúmu ári eftir að hafa verið einn besti leikmaður efstu deildar um árabil. Þá tók hann við hlutverki sem þjálfari í yngri flokkum Stjörnunnar en hefur einnig komið að leikgreiningu liðsins.

Fótbolti.net ræddi við Hilmar um nýja starfið í Vesturbænum.

Rökrétt skref
Óskar var á höttunum eftir nýjum aðstoðarþjálfara eftir að Emmi hætti og við tókum góða fundi saman. Athuguðum hvort við ættum einhverja samleið, við komumst fljótlega að því að við ættum mikla samleið hvernig við sjáum fótboltann. Og síðar fórum við að ræða verkaskiptingu og þess háttar. Á endanum leist mér mjög vel á þetta.

Þetta er auðvitað mjög heillandi skref ásamt því að fá að vinna með Óskari og læra af honum. Að sama skapi var ég í mjög góðu starfi hjá Stjörnunni og leið vel þar. Þetta er maður sem mig langar til að vera í kringum og fá að læra af. Þetta er skref sem mér fannst rökrétt að taka.“


Skrítið að fara frá Stjörnunni
Hilmar gekk til liðs við Stjörnuna árið 2016 frá Leikni Reykjavík. Hann segir skrítið að fara úr Garðabæ.

„Já, það er skrítið og erfitt að fara frá Stjörnunni. Auðvitað búinn að vera þar í áratug. Ég held að það sé öllum hollt að skipta af og til um umhverfi. Akkúrat núna er kannski góður tími til að skora aðeins á sig, fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt.“

Álíka sýn og Óskar
„Það er margt svipað hvernig við horfum á leikinn. Auðvitað er eitthvað sem ég myndi gera öðruvísi og eitthvað sem hann myndi gera öðruvísi. Almennt hefur mér alltaf fundist mjög gaman að horfa á liðin hans í gegnum tíðina.

Ég hef fylgst með honum sem þjálfara allt frá því að hann var með Gróttu. Það hefur alltaf verið mjög erfitt að spila gegn liðum undir hans stjórn sem leikmaður. Í sumar hafði ég engar taugar til KR en horfði á liðið vegna þess að það var alltaf skemmtilegt að horfa á það spila. Ég myndi segja að við værum með, að miklu leyti til, með svipaða hugmyndafræði.“


Tækifæri sem erfitt er að segja nei við
Hilmar hefur starfað sem þjálfari í yngri flokkum, en þetta verður hans fyrsta hlutverk í meistaraflokki. Hann sleit krossband árið 2022 og kom í kjölfarið inn í þjálfarateymi Stjörnunnar, þar sem hann aðstoðaði meðal annars við leikgreiningu.

Hilmar segist lengi hafa haft áhuga á þjálfun meistaraflokks, þótt hann hafi ekki endilega gert ráð fyrir að það gerðist strax.

„Eftir að ég meiddist neyddist ég til að horfa á leikina frá hliðarlínunni. Þá fóru einhver hjól að snúast með það að huga að næstu skrefum eftir ferilinn. Það hefur lengi blundað í mér einhverjar þjálfarapælingar. Ég ætlaði mér að taka einhver ár í yngri flokkunum - læra, gera mistök og allt það. En stundum koma tækifæri sem erfitt er að segja nei við,“ sagði Hilmar að lokum.
Athugasemdir