Breiðablik heldur áfram að fara á kostum í Pepsi Max-deild kvenna. Í kvöld niðurlægðu þær Þór/KA á heimavelli.
Í kvöld fóru fram tveir frestaðir leikir úr 5. umferðinni. Breiðablik skoraði sjö mörk um síðustu helgi gegn FH og í kvöld gerðu þær aftur sjö mörk gegn engu. Þær hafa ekki enn fengið á sig mark í sumar og það þarf í rauninni ansi mikið að gerast til þess að þær verði ekki Íslandsmeistarar.
Kristín Dís Árnadóttir kom Blikum yfir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir bætti við tveimur mörkum fyrir hlé. Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Rakel Hönnudóttir skoruðu svo allar í síðari hálfleiknum og lokatölur 7-0.
Yfirburðir hjá Blikum sem eru á toppi deildarinnar með fimm stigum meira en Valur. Þór/KA er í fimmta sæti með 11 stig.
Í hinum leik kvöldsins skildu Fylkir og ÍBV jöfn, 1-1. Olga Sevcova kom ÍBV yfir snemma í leiknum og þá skrifaði Mist Rúnarsdóttir í beinni textalýsingu: „Það kemur fyrirgjöf inná teig frá hægri. Miyah Watford flikkar boltann áfram á Olgu sem stingur sér fram fyrir Írisi Unu og klárar örugglega framhjá Cecilíu."
Fyrri hálfleikurinn var ekki sérlega fjörlegur en snemma í seinni hálfleiknum jöfnuðu heimakonur og var þar að verki Þórdís Elva Ágústsdóttir með viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf Huldu Hrund Arnarsdóttur.
Þar við sat og lokatölur 1-1. „Líklega sanngjörn niðurstaða," skrifaði Mist eftir leikinn. Fylkir er áfram í þriðja sæti með 16 stig og er ÍBV í fjórða sæti með 13 stig. Vel gert hjá ÍBV sem spáð var falli fyrir mót.
Breiðablik 7 - 0 Þór/KA
1-0 Kristín Dís Árnadóttir ('4 )
2-0 Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir ('15 )
3-0 Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir ('38 )
4-0 Agla María Albertsdóttir ('52 )
5-0 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('55 )
6-0 Sveindís Jane Jónsdóttir ('74 )
7-0 Rakel Hönnudóttir ('79 )
Lestu nánar um leikinn
Fylkir 1 - 1 ÍBV
0-1 Olga Sevcova ('5 )
1-1 Þórdís Elva Ágústsdóttir ('58 )
Lestu nánar um leikinn
Sjá einnig:
Blikastúlkur settu magnað met í kvöld - Enn ekki fengið á sig mark
Athugasemdir