Jesus gæti farið heim til Brasilíu - Marseille vill fá Nwaneri lánaðan - Mikið ber á milli Konate og Liverpool
   þri 20. janúar 2026 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Erfitt að fara frá uppeldisfélaginu - Teymið og vegferðin heilluðu mest
Mættur í FH.
Mættur í FH.
Mynd: FH
Í leik með HK.
Í leik með HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Snær og Aron jónsson voru kynntir saman í síðustu viku.
Kristján Snær og Aron jónsson voru kynntir saman í síðustu viku.
Mynd: FH
Birkir Valur Jónsson var byrjunarliðsmaður hjá HK á síðasta tímabili.
Birkir Valur Jónsson var byrjunarliðsmaður hjá HK á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Snær Frostason gekk í síðustu viku í raðir FH frá uppeldisfélaginu HK. Hann skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið 2028.

Hann á að baki sex leiki fyrir yngri landsliðin. Kristján Snær er fæddur árið 2005 og hefur spilað mest sem hægri bakvörður. Hann ræddi við Fótbolta.net um skiptin í FH.

Teymið og vegferðin heillaði mest
„Það er mjög spennandi að vera mættur í FH. FH er eitt af þeim félögum sem þekkir að vinna titla og vera í fremstu röð og það er spennandi að vera hjá þannig félagi. Auk þess er FH með þjálfara sem ég tel að henti mér vel. Ég held að teymið hjá FH og sú vegferð sem félagið er á hafi heillað mig mest. Metnaður minn er að spila meðal þeirra fremstu þ.e. að vera í Bestu deildinni og vera í toppbaráttu þar."

„Þetta gerðist nú tiltölulega hratt enda nýlega orðið ljóst að ég yrði hér á landi í sumar,"
segir Kristján Snær aðspurður hvort að aðrir kostir hefðu verið í boði.

Jóhannes Karl Guðjónsson tók við sem þjálfari FH eftir síðasta tímabil og Árni Freyr Guðnason er hans aðstoðarmaður. FH hefur verið að yngja leikmannahópinn hjá sér og markmiðið til lengri tíma er að berjast á toppnum.

Fer frá vinum og uppeldisfélaginu
Var erfitt að fara frá HK?

„Já, það er alltaf erfið ákvörðun að fara frá uppeldisfélagi sínu. Flestir mínir vinir eru í HK og ég dýrka þennan stað en að lokum þarf maður bara hugsa um sjálfan sig."

„Þetta gerðist allt saman frekar hratt. Eftir að Jói Kalli fór yfir sín plön og markmið FH á næstu árum varð ég strax heillaður. Eins og kom fram áðan efast ég um að það hafi verið á vitorði margra að ég væri ekki að fara aftur til Bandaríkjanna. Mér leist vel á FH og sló því til."


Síðasta tímabil vonbrigði
Kristján Snær spilaði ellefu leiki í Lengjudeildinni á síðasta tímabili.

„Ég hef mikinn metnað og er með keppnisskap. Ég hefði viljað spila meira síðasta sumar ef ég á að vera hreinskilinn enda spilaði ég mjög mikið í Bestu deildinni árið á undan. Þannig að 2025 var vonbrigði hvað spiltíma varðar og svo vonbrigði að HK tryggði sér ekki sæti í Bestu deildinni."

Heilt yfir mjög sáttur með tímann hjá HK
Heilt yfir hvernig gerir þú upp tímann hjá HK?

„HK er frábær klúbbur, með eina bestu aðstöðu á landinu til æfa fótbolta. Ég var með mjög góða þjálfara í gegnum yngri flokka HK, lengst af Ómar Inga (Guðmundsson) og Axel (Lúðvíksson) en svo einnig aðra mjög góða. Svo gáfu Brynjar Björn (Gunnarsson) og Viktor Bjarki (Arnarsson) mér fyrsta tækifærið mitt með meistaraflokki þegar ég var 16 ára. Ég æfði þá með meistaraflokki og spilaði með 2. flokki. Það var fáránlega gaman þar sem Kári Jónasson, sem þjálfaði HK á þeim tíma spilaði mér oft í vinstri bakverði og á miðju. Það var smá breyting á stöðum en ég elskaði það. Svo tók Ómar Ingi við meistaraflokki og gaf mér ennþá fleiri tækifæri þar. Þannig heilt yfir er ég mjög sáttur með tíma minn hjá HK og á mörgum þar að þakka."

Fór út í háskóla
Kristján Snær var í háskólanámi í Bandaríkjunum, hvernig fór það?

„Ég fór í ágúst til Dayton Ohio og spilaði þar - eitthvað sem mig hafði lengi langað til. Ég var ánægður með námið og fótboltann en hefði kannski viljað fara á annað svæði. Eftir fyrstu önnina skoðaði ég að skipta um skóla og talaði við fullt af öðrum skólum en ekkert sem mér fannst nógu áhugavert, þannig ég ákvað að koma heim og skráði mig í Háskóla Íslands."

Markmiðið að verða betri og hjálpa FH
Hvað langar þig að afreka með FH?

„Markmiðið mitt er fyrst og fremst að verða betri leikmaður í fótbolta en samhliða því að koma FH aftur á þann stað að keppa um titla."

Í samkeppni við annan HK-ing
Hjá FH er hægri Birkir Valur Jónsson í hægri bakverði. Birkir Valur kom frá HK fyrir síðasta tímabil. Hvernig líst Kristjáni Snæ á það?

„Birkir Valur er toppeintak. Við þekkjumst mjög vel og erum góðir vinir þar sem við vorum lengi saman í HK. Samkeppni er mjög góð fyrir alla einstaklinga, þannig ég er bara mjög spenntur fyrir þessu öllu saman," segir Kristján Snær.
Athugasemdir
banner