Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fös 20. mars 2020 16:16
Elvar Geir Magnússon
Stjarnan hefur ekki æft í viku - Rúnari finnst vanta sameiginlega ákvörðun
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við æfðum síðastliðinn föstudag og svo skelltum við bara í lás," segir Rúnar Páll Sigmundsson, annar af þjálfurum Stjörnunnar í Pepsi Max-deildinni.

Stjarnan hætti æfingum þegar tilkynnt var um samkomubann og segir Rúnar að sú ákvörðun hafi verið tekin með öryggi leikmanna og þeirra nánustu í huga.

„Leikmenn æfa bara sjálfir eftir plani. Mönnum finnst það ekkert sérlega skemmtilegt en við tókum að mínu viti skynsama ákvörðun," segir Rúnar en hann mætti í útvarpsþáttinn Fótbolti.net í dag

„Þetta er skrítið en við tókum þá ákvörðun að láta hópinn ekki vera að hittast í einhvern tíma. Það hefði verið hægt að halda úti einhverjum misgáfulegum æfingum. Við vitum ekki hvenær mótið byrjar og núllpunkturinn er ekki til staðar."

Stefnan er núna sett á að Íslandsmótið hefjist um miðjan maí en Rúnar telur ekki miklar líkur á að það verði að veruleika.

„Ég efast stórlega um það miðað við hvað er í gangi í Skandinavíu. Það eru engin lið í Skandinavíu að æfa saman. Menn æfa bara sjálfir eftir prógrammi. Af hverju eigum við á Íslandi þá að vera að æfa saman? Við vitum ekki hvað getur gerst og bjóðum ekki hættunni heim," segir Rúnar.

Íslensk lið hafa farið misjafnar leiðir en flest eru enn að halda úti skipulögðum æfingum.

„Það eru nokkur lið sem æfa ekki. Þar á meðal FH og Fylkir. Mér finnst vanta sameiginlega yfirlýsingu frá ÍTF og KSÍ svo menn séu að gera það sama."

Smelltu hér til að hlusta á þáttinn eða notaðu spilarann hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Krísufundur íslenska boltans
Athugasemdir
banner
banner
banner