
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, lærði mikið af fyrsta leiknum undir hans stjórn er það tapaði fyrir Kósóvó, 2-1, í fyrri umspilsleik um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í Pristina í kvöld.
Lestu um leikinn: Kósovó 2 - 1 Ísland
Íslenska liðið átti fínasta fyrri hálfleik og skoraði gott jöfnunarmark eftir að Ísak Bergmann Jóhannesson þræddi boltann inn á Orra Stein Óskarsson sem sólaði markvörðinn og smellti boltanum efst í hægra hornið.
Liðið kom ekki jafn öflugt inn í síðari hálfleikinn og var það Kósóvó sem var líklegra til að skora, sem það gerði fyrir rest, en Arnar fór yfir leikinn í kvöld.
„Það voru „ups and downs“. Það voru margir mjög góðir hlutir og nokkrir hlutir sem þarf að laga. Það gladdi mig sérstaklega í fyrri hálfleik hvað við vorum góðir á bolta á tímabili og markið okkar frábært uppspilsmark þar sem þeir komu ekki við boltann svo langtímis saman og við sprengdum þá upp.“
„Pressan okkar í fyrri hálfleik var ekki alveg upp á það besta. Við töldum vitlaust í ákveðnum atriðum en svo var fyrsta korterið-tuttugu mínútur síðari hálfleik afhroð. Við vorum ekki að að veita þeim samkeppni og náðum engu spili upp og unnum enga seinni bolta. Við getum talað um hvað okkur langar að spila góðan og skemmtilegan fótbolta en skítuga hliðin af leiknum að vinna seinni bolta og návígi var ekki til staðar. Maður var hálfpartinn að bíða eftir að þeir myndu skora og það lág svolítið á okkur. Þeir skoruðu slæmt mark af okkar hálfu og eftir það reyndum við að hrista aðeins í liðinu og fá góða varamenn sem komu sterkir inn í leikinn. Bæði lið fengu færi eftir það en erfitt að meta hvort liðið fékk fleiri eða betri færi en bæði lið fengu svo sannarlega færi til að skora fleiri mörk,“ sagði Arnar við íslenska fjölmiðla í kvöld.
Kósóvó-menn gerðu tvær breytingar í hálfleik. Riðlaði það leik íslenska liðsins?
„Maður á eftir að meta þetta hvort það riðlaði okkar leik eða hvort við komum bara illa stemmdir út í hálfleik. Þetta er eitthvað sem maður þarf að vega og meta og vera sjálfsgagnrýninn með — hvað klikkaði í hálfleik og þess háttar. Það er svo lítið sem skilur að í þessum leik en stundum þarf að bretta upp ermarnar og vinna návígi. Ég man ekki eftir einu návígí sem við unnum á þessum kafla. Það kveikir á áhorfendum þeirra og þeir fá blóð á tennurnar. Þetta eru augnablik sem munu skilja að og hvernig leikstjórnunin var. Við vorum ekki beint með líkamlegustu miðju í heimi, heldur tekníska miðju sem skapaði markið en það verður líka að taka þátt í skítugu hlið leiksins.“
Lærðir þú eitthvað af þessum leik?
„Já mér fannst það. Fyrir leikinn töluðum við um frammistöðu og sjá eitthvað konsept, sem mér fannst við gera vel í fyrri hálfleik og smá part af seinni hálfleik, þó minna. Það voru smá læti því þeir fóru 1-1 á heimavelli væru ekki góð úrslit fyrir þá og sóttu þeir markið sitt vel, voru aggresífir og skyndisóknirnar hættulegar. Það voru margir góðir hlutir sem geta sýnt fram á að við getum átt góða daga framundan en svo er þessi alþjóðlegi fótbolti grimmur og refsar þér vel þegar þú bíður eftir að hlutir gerast í staðinn fyrir að sækja hlutina.“
Eru menn ekki þyrstir í að sýna betri frammistöðu í seinni leiknum?
„Já, kannski heilsteyptari frammistöðu í 90 mínútur. Það var smá 'sloppy' varnarleikur hjá öllum fannst mér. Fremstu fjórir og miðjumennirnir voru ekki alveg nógu öflugir í varnarleiknum þetta örlagaríka korter sem við erum að tala um. Mér fannst það lagast aðeins þegar við gerðum skiptingar og fáum meiri líkamlegri kraft, þannig það eru alltaf kostir og gallar. Við fáum mark með léttleikandi mönnunum en þegar það vantaði þennan líkamlega kraftþá vantaði upp á í þeim efnunum, en nokkurn veginn sáttur við margt úr þessum leik.“
Arnar gæti enn gert breytingar á hópnum fyrir leikinn á sunnudag en hann á eftir að vega og meta það. Enginn leikmaður Íslands verður í banni.
„Ekki enn. Ég held að við höfum sloppið ágætlega en mögulega þarf ég að vega og meta á leiðinni heim til Murcia hvort einhverjir séu það laskaðir að þeir treysta sér ekki áfram en ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um það.“
Ísland spilar heimaleikinn við Kósóvó í Murcia á Spáni en hann er spilaður á sunnudag. Eru menn bjartsýnir fyrir leikinn?
„Já, það er engin skelfing að tapa á útivelli 2-1. Alls ekki, það er ekki himinn og jörð að farast. Nú byrjar ballið og skömminni verra að tapa 3-1 og fá það í andlitið á sér. Það er allt að spila fyrir þannig við förum brattir í seinni leikinn. Engin spurning,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir