Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   fim 20. júní 2024 18:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óskar Hrafn: Eins og illa rekið fyrirtæki sem er á leið í gjaldþrot
Englendingar eru með fjögur stig en hafa ekki litið vel út.
Englendingar eru með fjögur stig en hafa ekki litið vel út.
Mynd: EPA
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands.
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands.
Mynd: Getty Images
Það er erfitt að sjá að fótboltinn muni koma heim eftir fyrstu tvo leiki Englands á EM. Englendingar eru með fjögur stig eftir nauman sigur gegn Serbíu og lélega frammistöðu í jafntefli gegn Danmörku.

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, fær mikla gagnrýni í heimalandinu eins og svo oft áður en liðið hefur verið mjög ósannfærandi þrátt fyrir að vera með margar stjörnur innanborðs.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrum þjálfari Breiðabliks og Haugesund, tók enska liðið fyrir í EM Stofunni á RÚV núna áðan. Hann er ekki hrifinn af því sem er í gangi þarna en enska liðið er búið að vera leiðinlegt og áhugalaust á þessu móti hingað til.

„Þegar við sitjum hérna núna þá er ekki nokkur skapaður hlutur spennandi við það (enska liðið)," sagði Óskar Hrafn. „Mér fannst Ollie Watkins eiga fína innkomu. Það er skrítið að vera hérna og skamma landsliðsþjálfara Englands þegar ég er atvinnulaus sjálfur en það er eins og það er. Ég skil ekki hvernig þú getur sett Jarrod Bowen inn á og verið með Cole Palmer og Anthony Gordon á bekknum. Það er mér hulin ráðgáta. Mér finnst það galið."

„Ef Englendingar hefðu unnið þennan leik, þá hefði það verið þjófnaður. Það hefði verið vont fyrir þá því þá hefðu þeir ekki þurft að taka á þeim vandamálum sem bíða þeirra. Liðið þeirra er í fyrsta gír. Ég veit ekki hvað þeir halda, hvort þeir haldi að þeir geti bara kveikt á sér og slökkt á sér þegar þeim hentar. Þetta er ekki svona einfalt. Þú ert ekki allt í einu bara með geggjað hugarfar. Það gerist ekki þannig."

Óskar segir að það sé ábyrgð þjálfarans að láta leikmenn blómstra en Southgate sé ekki að takast það. Hann sé ekki nægilega hugrakkur og sé með leikmenn í beisli.

„Þetta dæmi hjá Englandi núna lítur út eins og það sé að fara í þrot, bara eins og illa rekið fyrirtæki sem er komið í greiðslustöðvun og er á leið í gjaldþrot," sagði Óskar og hélt áfram:

„Ef það er eitthvað lið sem átti að vinna þennan leik, þá voru það Danir. Og þó það hefði nú ekki bara verið nema til að sparka í rassgatið á Gareth Southgate. Hvað átti Southgate að gera? Farðu bara úr að ofan eða eitthvað. Gerðu eitthvað! Sýndu að þú sért með lífsmarki. Hann er bara eins og 100 ára gamall prófessor í einhverjum háskóla. Það er ekkert þarna, engin ástríða eða neitt. Liðið hans er eiginlega eins leiðinlegt og hann lítur út fyrir að vera. Það er eins og þeim leiðist öllum. Það er eins og einhver sé að pína þá til að vera þarna. Ég skil þetta ekki. Þú verður að taka handbremsuna og rífa hana af. Hættu þessu bulli! Hættu að vera hræddur."

Það er erfitt að vera sannfærður um Englendinga en þeir mæta næst Slóveníu á þriðjudaginn.


EM hringborðið - Lárus Orri og Óðinn Svan ræða fyrstu vikuna
Athugasemdir
banner
banner