Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   lau 20. júlí 2024 18:11
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Sveinn Margeir kvaddi með stæl - Annað tap Víkings í sumar
Sveinn Margeir skoraði sigurmarkið í síðasta leik sínum á tímabilinu
Sveinn Margeir skoraði sigurmarkið í síðasta leik sínum á tímabilinu
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Víkingar fóru illa með mörg góð færi
Víkingar fóru illa með mörg góð færi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 1 - 0 Víkingur R.
1-0 Sveinn Margeir Hauksson ('88 )
Lestu um leikinn

KA vann óvæntan 1-0 sigur á toppliði Víkings í 15. umferð Bestu deildar karla á Greifavellinum í dag. Þetta var aðeins annað tap Víkings í deildinni í sumar.

Topplið Víkinga var með öll völdin í fyrri hálfleiknum og ótrúlegt að því hafi ekki tekist að skora að minnsta kosti eitt mark.

Ari Sigurpálsson hótaði marki strax á 7. mínútu. Valdimar Þór Ingimundarson keyrði upp kantinn, kom boltanum á Karl Friðleif Gunnarsson sem náði skoti. Steinþór Már Auðunsson varði boltann út á fjærstöng þar sem Ari var mættur en hann setti boltann í stöngina. Algert dauðafæri fyrir gestina.

Víkingar voru að ná að skapa sér góðar stöður í leiknum en heimamenn fengu einnig sín færi, Harley Willard átti besta færi KA í fyrri hálfleiknum. Willard fékk boltann við markteiginn, tók eina snertingu en skot hans langt framhjá markinu. Algert dauðafæri sem Willard fór illa með.

Mínútu síðar var Ari enn og aftur nálægt því að koma Víkingum í forystu. Skot hans var á leið í markið en þá kom Hans Viktor Guðmundsson á elleftu stundu til að bjarga marki.

Víkingar voru mun meira með boltann í síðari hálfleiknum en lítið um opnanir.

Hálftíma fyrir leikslok fékk Matthías Vilhjálmsson tvö færi og Halldór Smári Sigurðsson eitt til að skora en Steinþór Már með magnaðar vörslur í markinu.

Tveimur mínútum síðar fékk Willard annan séns til að skora þegar hann slapp einn í gegn en Pálmi Rafn Arinbjörnsson sá við honum í markinu.

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma kom sigurmark leiksins. Sveinn Margeir Hauksson átti frábæran sprett í gegnum vörn Víkinga og setti hann framhjá Pálma sem stóð frosinn í markinu.

Sveinn Margeir er að spila sinn síðasta leik fyrir KA í sumar, en hann og Birgir Baldvinsson eru á leið í nám til Bandaríkjanna.

Annað tap Víkings í deildinni staðreynd. KA fer upp í 7. sæti með 18 stig en Víkingur er á fram á toppnum með 33 stig. Þetta tap gefur Breiðabliki og Val tækifæri á því að blanda sér betur inn í titilbaráttuna.
Athugasemdir
banner
banner
banner