Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KR, finnst sú gagnrýni sem félagið hefur fengið á samfélagsmiðlum og víðar vera ósanngjörn. Leikur ÍBV og KR átti að fara fram í kvöld en var frestað þar sem flugvél með leikmönnum KR gat ekki lent í Eyjum vegna þoku.
„Það voru tvær vélar sem fóru í loftið. Önnur þeirra var með liðsstjórn félagsins og dómurum KSÍ sem ákváðu að fljúga líka, hin var með leikmönnum KR. Fyrri vélin lenti en hin fékk ekki heimild til að lenda vegna þoku. Meira er ekki um málið að segja," segir Jónas.
Leikurinn hefur verið settur á annað kvöld en ýmsir aðilar eru pirraðir yfir því að KR hafi ekki farið til Vestmannaeyja fyrr í dag, þegar samgöngur voru í lagi. Meðal annars var tæknilið Stöðvar 2 Sports mætt til Eyja en er nú á leið til baka.
„Menn geta fabúlerað eins og þeir vilja með að einhverjir hafi verið að tapa peningum, hvað heldur þú að Knattspyrnufélag Reykjavíkur hafi tapað miklu? Það er ekki hægt að gagnrýna þetta."
„KSÍ og KR ákváðu að taka flugvél til Vestmannaeyja. KR hefur alltaf gert þetta með þessum hætti. Veðrið setti strik í reikninginn. Við erum ekki veðurfræðingar eða flugmenn. Við erum bara að kaupa þjónustu. Að þessu sinni vorum við með flugtíma sem átti að henta til að leikurinn gæti farið fram á réttum tíma eins og öll árin hjá KR. Við lendum í þeirri óheppni að það er veður sem stoppar þetta. Það er ekki hægt að gagnrýna KR fyrir hvernig veðrið sé í landinu," segir Jónas.
Athugasemdir