Heimild: RÚV
Íslensk fótboltalið mega fara í svokallaða vinnusóttkví eftir Evrópuleiki erlendis. Það þýðir að þau mega æfa á meðan sóttkvínni stendur en ekki spila við önnur lið. Þetta staðfesti Víðir Reynisson hjá Almannavörnum við RÚV í dag.
„Við funduðum um þetta í morgun og fórum yfir þetta með sérfræðingum hjá sóttvarnarlækni. Niðurstaðan er sú að kröfur og reglur UEFA og KSÍ og þær hugmyndir sem hafa um þetta uppfylla skilyrði um vinnusóttkví. Þannig að liðin sem eru að koma hingað til lands úr ferðum erlendis geta farið í slíka sóttkví." segir Víðir.
Liðin þurfa að sækja um vinnusóttkví fyrir ferð sína erlendis. Þá megi þau æfa eftir heimkomuna en ekki spila við önnur lið á meðan þessi 5-6 daga sóttkví eftir heimkomu stendur yfir.
KR-ingar eru í sóttkví eftir að hafa spilað við Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar í vikunni. Það er því ljóst að það þarf að fresta stórleik KR og Vals sem átti að fara fram á laugardaginn.
Annað fyrirkomulag um erlend lið sem hingað koma
Öðruvísi reglur gild um erlend lið sem koma til landsins til að keppa. Þau þurfa ekki að fara í gegnum sóttkví.
Þar er sem dæmi Dunajska Streda frá Slóvakíu sem á að leika gegn FH 27. ágúst og enska landsliðið sem mætir því íslenska á Laugardalsvelli þann 5. september.
„Það er annað fyrirkomulag á því. Þau eru að koma inn í þessa svokölluðu 'búbblu' sem sett er upp í sambandi við þessa UEFA-leiki. Þannig að liðin byrja í henni erlendis, fara í sýnatöku erlendis áður en þeir koma hingað og eru í hálfgerðri sóttkví áður en þeir koma til landsins. Þá fara þeir í sýnatöku hjá okkur á landamærunum og mega æfa og spila leikinn innan þess fimm daga ramma ef að þörf krefur á," segir Víðir við RÚV.
Athugasemdir