Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
   sun 21. mars 2021 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fóru ekki niður á hné fyrir leik
Leikmenn Celtic og Rangers kusu að fara ekki niður á hné fyrir leik liðanna í dag.

Það hefur skapast hefð fyrir því í ensku úrvalsdeildinni og víðar að krjúpa á kné fyrir leiki til að sýna samstöðu gegn kynþáttafordómum.

Ákvörðunin um að krjúpa ekki á kné var tekin eftir að Glen Kamara, miðjumaður Rangers, hélt því fram að hann hefði orðið fyrir kynþáttafordómum í leik gegn Slavia Prag í Evrópudeildinni síðasta fimmtudag.

Ondrej Kudela, varnarmaður Slavia, viðurkenndi að hafa sagt ljóta hluti við Kamara en neitaði ásökunum um kynþáttafordóma.

Kemar Roofe, sóknarmaður Rangers, varð þá fyrir kynþáttafordómum á samfélagsmiðlum eftir að hann fékk rauða spjaldið í leiknum gegn Slavia Prag.

Scott Brown, fyrirliði Celtic, fór fyrir leikinn í dag og heilsaði upp á Kamara. Hann sýndi honum stuðning.

Það er mikill rígur á milli Celtic og Rangers en liðin stóðu saman fyrir leikinn í dag.

Wilfried Zaha, leikmaður Crystal Palace, varð á dögunum fyrsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar til að standa frekar en að krjúpa.

„Það er ekkert rétt eða rangt í þessu en mér fannst bara vera orðin ákveðin rútína að fara niður á hné fyrir leik. Í augnablikinu skiptir það ekki máli hvort við förum niður á hné eða stöndum, sum okkar halda áfram að verða fyrir fordómum," sagði Zaha og hann kallaði eftir aðgerðum.


Athugasemdir
banner
banner
banner