„Tilfinningin er mjög góð, gott að vera komin heim aftur og er bara virkilega spennt fyrir komandi tímum," segir Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem gekk í raðir Breiðabliks í vetur.
Markaskorarinn, sem er 33 ára, er mætt aftur í Breiðablik eftir að hafa farið frá félaginu í lok sumars 2020. Hún er markahæsti leikmaður Breiðabliks í sögunni með 115 mörk í 165 leikjum. Frá því að hún fór frá Breiðabliki hefur hún verið hjá Le Havre og PSG í Frakklandi, Hammarby í Svíðjóð, Brann í Noregi og svo Val á síðasta tímabili.
Markaskorarinn, sem er 33 ára, er mætt aftur í Breiðablik eftir að hafa farið frá félaginu í lok sumars 2020. Hún er markahæsti leikmaður Breiðabliks í sögunni með 115 mörk í 165 leikjum. Frá því að hún fór frá Breiðabliki hefur hún verið hjá Le Havre og PSG í Frakklandi, Hammarby í Svíðjóð, Brann í Noregi og svo Val á síðasta tímabili.
„Fyrstu vikurnar hafa verið frábærar, það hefur gengið ótrúlega vel. Við byrjuðum svolítið frá grunni þegar ég skrifaði undir, ég er búin að byggja mig hægt og rólega upp og er komin á mjög góðan stað í dag."
„Ég er kannski ekki tilbúin í 90 mínútur í kvöld, en vonandi 60, kemur í ljós," sagði Berglind og brosti en Breiðablik á leik gegn Val í undanúrslitum Lengjubikarsins í kvöld.
„Það hefur klárlega mikið breyst í Breiðabliki, náttúrulega nýtt þjálfarateymi, ný stjórn og nýtt fólk sem er að vinna hjá klúbbnum. Það er mikið af ungum og efnilegum stelpum sem ég náði ekki að spila með áður en ég fór út. Það eru margir nýir leikmenn og gaman að upplifa Breiðablik svona líka."
Hjá Blikum, eru þetta þú og Katrín Ásbjörnsdóttir og svo bara ungar stelpur með ykkur?
„Svona nánast, nei nei, það eru tvær að detta í þrítugt í hópnum. Þetta er bara frábær blanda, gaman að vera í kringum þessar stelpur."
„Markmiðið er klárlega að stefna á báða titlana, markmiðið hjá Breiðabliki er alltaf að vinna titlana. Við erum ekkert að fela það að við ætlum að taka þá báða."
Berglind stefnir sjálf á að ná að finna sjálfa sig aftur og spila vel „og vonandi skora einhver mörk. Bara hafa gaman af þessu."
Hún segir að síðasta sumar hafi verið skrítið. „Mér fannst það. Þegar ég hugsa til baka þá mögulega fór ég alltof fljótt af stað því ég var í þvílíku veseni allt síðasta tímabil með líkamann á mér. Ég náði einhvern veginn aldrei að komast í takt við liðið. Þess vegna lögðum við upp með að byggja mig upp alveg frá grunni. Það hefur bara gengið ótrúlega vel."
Berglind eignaðist sitt fyrsta barn síðasta vetur. Endurkoman var öðruvísi en hún bjóst við.
„Ég var búin að heyra að hausinn er alltaf kominn lengra heldur en líkaminn, og það er sannarlega málið. Þetta er fáránlega erfitt og ég er bara ótrúlega stolt af sjálfum mér að ná að koma til baka núna, vonandi næ ég að finna sjálfa mig og að það gangi vel í sumar."
Var Breiðablik strax fyrsti kostur?
„Breiðablik. Það var ekkert annað, mig langaði bara að fara heim í Breiðablik, finna gleðina og fara í það sem ég þekki. Þetta var mjög auðvelt val."
Hvernig líst henni á þjálfarann Nik Chamberlain?
„Mér líst ótrúlega vel á Nik, frábær þjálfari. Nú er ég 33 ára en hann er ennþá að kenna mér margt. Frábært að vinna með honum og hann hefur mikinn metnað," segir Berglind.
Í lok viðtals, sem sjá má í heild sinni í spilaranum efst, var hún spurð út í Katrínu Ásbjörnsdóttur, landsliðið og leik kvöldsins. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og fer fram á Kópavogsvelli.
Athugasemdir