City hefur sett verðmiða á McAtee - Real til í að bíða eftir Konate og hefur áhuga á Saliba
   mán 21. júlí 2025 22:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Dóri Árna: Krafa á Lech að vinna einvígið - Gígantískur munur
'Ég met þetta þannig að við eigum góðan séns í þessu einvígi'
'Ég met þetta þannig að við eigum góðan séns í þessu einvígi'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Poznan vann pólsku deildina í vor í níunda sinn.
Poznan vann pólsku deildina í vor í níunda sinn.
Mynd: EPA
Gísli Gotti var keyptur til Lech frá Víkingi í vetur.
Gísli Gotti var keyptur til Lech frá Víkingi í vetur.
Mynd: EPA
'Það er gígantískur munur, allt annað ef við erum hreinskilnir'
'Það er gígantískur munur, allt annað ef við erum hreinskilnir'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ef við höldum í okkar gildi, náum upp góðri frammistöðu, þá eigum við góðan möguleika.'
'Ef við höldum í okkar gildi, náum upp góðri frammistöðu, þá eigum við góðan möguleika.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Létt yfir Damir, Brynjari Atla og Kristófer á leikvanginum í Poznan í kvöld.
Létt yfir Damir, Brynjari Atla og Kristófer á leikvanginum í Poznan í kvöld.
Mynd: Breiðablik
Arnór Gauti fékk hrós frá Dóra.
Arnór Gauti fékk hrós frá Dóra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klukkan 18:30 að íslenskum tíma annað kvöld mæta Íslandsmeistararnir í Breiðabliki pólsku meisturunum í Lech Poznan í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppninnar í Meistaradeildarinni. Á morgun er spilað á Enea Stadion í Poznan, heimavelli Lech. Seinni leikur liðanna fer svo fram á Kópavogsvelli miðvikudaginn 30. júlí.

Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason. þjálfara Breiðabliks, um komandi leik.

Krafa á Lech að vinna einvígið
„Þetta er mjög gott fótboltalið, pólskir meistarar og það er smá skandinavískur bragur á þeim; Daninn Niels Frederiksen að þjálfa - var með Bröndby á sínum tíma, margir Svíar í hópnum, Norðmaður og Gísli Gotti. Þetta verða tveir hörku leikir, við erum klárir í baráttuna," segir Dóri.

„Þeir eru að koma inn í leikinn eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð, eitthvað sem þeir eru pottþétt ekki sáttir með. Það er klárt að það er krafa á þá að vinna þetta einvígi. Ég met þetta þannig að við eigum góðan séns í þessu einvígi, búum yfir mikilli reynslu úr Evrópuleikjum síðustu ár, erum vanir því að spila stóra leiki á stóru sviði."

Gígantískur munur á andstæðingunum
Fréttamaður sagði að þetta væri smá munur á því að mæta albönsku meisturunum og þeim pólsku. Breiðablik vann 5-0 gegn Egnatia á Kópavogsvelli síðasta þriðjudag og einvígið 5-1. „Það er gígantískur munur, allt annað ef við erum hreinskilnir. Lech er betra fótboltalið og þetta verður krefjandi verkefni."

„Ef við höldum í okkar gildi, náum upp góðri frammistöðu, þá eigum við góðan möguleika. Það er alveg ljóst að við verðum aðeins varnarsinnaðri, erum ekki að fara pressa hátt í 180 mínútur, en við ætlum að halda i okkar gildi og höfum trú á því að skili jákvæðum úrslitum."


Margir í stórum hlutverkum
Þjálfarinn er ánægður með þann stað sem liðið hans er á í dag.

„Ég er mjög sáttur, við töluðum um það fyrir leikinn úti í Albaníu að framundan væri mikil leikjatörn og það yrðu margir í stórum hlutverkum. Það er alveg ljóst að menn geta ekki spilað 90 mínútur á 2-3 daga fresti endalaust, það verður náttúruleg rótering á liðinu. Arnór Gauti, sem dæmi, kom frábærlega inn á í báðum leikjunum gegn Egnatia, sinnti stóru og mikilvægu hlutverki."

Sókndjarft lið gegn Vestra
Breiðablik tefldi fram ansi sókndjörfu liði gegn Vestra á laugardag. Anton Logi Lúðvíksson var með Damir Muminovic og Viktor Erni Margeirssyni aftast í varnarlínunni og var Anton ansi sókndjarfur af miðverði að vera.

„Mér fannst mjög gaman að horfa á liðið, vorum með menn hátt uppi á vellinum seint í leiknum að leita að öðru marki, hægara sagt en gert að brjóta Vestra á bak aftur og það tókst ekki að finna annað markið, en mjög sterkt að klára þennan sigur."

„Uppstillingin var svona af því að menn voru í banni; Valgeir, Arnór Gauti og Ásgeir Helgi. Kiddi Jóns var ekki klár í 90, þannig að við fórum þessa leið."

„Deildin er mjög skemmtileg fyrir þá hlutlausu geri ég ráð fyrir, þrjú lið jöfn á toppnum og öll þrjú að spila þétt þessa dagana, eru öll í Evrópuverkefnum."


„Frábært að sjá hann vera kominn á þetta svið"
Í liði Lech Poznan er Gísli Gottskálk Þórðarson sem er uppalinn hjá Breiðabliki. „Hann var í Breiðabliki þegar ég kom, en var fljótlega farinn út til Ítalíu. Það er bara frábært að sjá hann vera kominn á þetta svið, enn einn uppaldi Blikinn sem er að gera góða hluti, flott að sjá Íslending komast strax í stórt hlutverk hjá pólsku stórliði."

„Það kom mér ekki á óvart að hann fengi þetta stórt tækifæri eftir síðasta tímabil, hann þurfti að bíða þolinmóður eftir sínu hlutverki en greip það þegar það kom og stóð sig virkilega vel."


Þrír virkilega öflugur miðverðir
Damir Muminovic kom aftur inn í lið Breiðabliks gegn Vestra, núna verður væntanlega hausverkur fyrir Dóra að velja hverjir eiga að byrja í hjarta varnarinnar. Viktor Örn Margeirsson og Ásgeir Helgi Orrason hafa spilað vel framan af móti.

„Það verður að einhverju leyti náttúruleg rótering þar líka, Viktor Örn er sem dæmi búinn að spila nánast allar mínúturnar á tímabilinu. Það er nauðsynlegt að vera með þrjá öfluga miðverði. Við höfum verið með Anton Loga og Arnór Gauta til að leysa af, þeir hafa staðið sig mjög vel, en það er gott að vera með þrjá virkilega öfluga miðverði að velja úr."

Þarf liðsstyrk?
Það er þétt spilað hjá Blikum, ekki margir dagar á milli leikja fram að landsleikjahléi í september. Vill hann fá inn styrkingu?

„Ég er mjög ánægður með hópinn sem ég er með og treysti honum fyrir því að klára tímabilið. Þetta fer aðeins eftir stöðunni á meiddu mönnunum, Davíð og Andra Yeoman. Davíð er byrjaður að hlaupa aðeins og Andri fer að fá niðurstöðu úr myndatökum. Ef það er ekki of langt í þá, og enginn fer frá okkur, þá er ég mjög sáttur með stærðina á hópnum."

Er möguleiki að einhver fari út?

„Við erum með unga öfluga leikmenn, og verðum að vera tilbúnir í að það gæti myndast áhugi á þeim. Valgeir Valgeirsson, Óli Valur Ómarsson, Ágúst Orri Þorsteinnson, Ásgeir Helgi Orrason og Gabríel Snær Hallsson hafa allir verið í hlutverki og það er fylgst vel með Breiðabliki."

Blikar komu til Póllands í gær, flogið var til Berlín, borðað þar og svo keyrt yfir til Póllands. Liðið æfði á keppnisvellinum í kvöld og spilað verður klukkan 20:30 að staðartíma annað kvöld.

Ljóst er að sigurliðið úr þessu einvígi mætir annað hvort Lincoln Red Imps eða Rauðu stjörnunni frá Belgrad í 3. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Tapliðið mætir tapliðinu úr einvígi Slovan Bratislava og Zrinjski Mostar í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni.
Athugasemdir
banner