Arsenal og Man Utd berjast um Sane - Zubimendi til Arsenal? - Murillo orðaður við risa félög - Liverpool vill fá Pepi
   fim 22. febrúar 2024 16:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stara Pazova
Rosaleg áskorun eftir sáran endi - „Tilboðið kom að lokum ekki"
Icelandair
Ingibjörg Sigurðardóttir.
Ingibjörg Sigurðardóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Samdi við Duisburg í janúar.
Samdi við Duisburg í janúar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spennandi tímar framundan.
Spennandi tímar framundan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í landsleik.
Í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir yfirgaf nýverið Vålerenga í Noregi og gekk til liðs við Duisburg í Þýskalandi. Hún skrifaði undir samning við Duisburg fram á sumar.

Duisburg er afar áhugavert félag sem vann Meistaradeild kvenna 2009 og tókst einnig að vinna þýsku deildina einu sinni og þýska bikarinn þrisvar sinnum. En félagið varð gjaldþrota 2013 og varð til í núverandi mynd árið 2014. Síðan þá hefur ekki gengið eins vel hjá félaginu og er það núna á botninum í þýsku úrvalsdeildinni.

Um er að ræða alvöru áskorun fyrir Ingibjörgu en Duisburg er aðeins með fjögur stig eftir 14 leiki. Liðinu hefur tekist að ná í tvö af þessum stigum eftir að Ingibjörg kom inn í vörnina í síðasta mánuði.

„Þetta er spennandi. Það er mjög, mjög stórt verkefni að hjá Duisburg. Ég vildi áskorun og ég vildi fara í sterka deild. Þetta er heldur betur það sem ég vildi," sagði Ingibjörg við Fótbolta.net í dag. „Þetta er alvöru áskorun en ég finn góðan stíganda í liðinu. Svona litlir sigrar eins og að fá markalaust jafntefli í síðasta leik, ég hefði ekki fagnað því oft áður. En ég er að fá mikla reynslu og læri mikið af þessum tíma."

„Ég vissi alveg hvaða lið Duisburg er. Þetta er félag með mikið 'potential' en það er oft þannig í kvennaboltanum að félag er með mikið 'potential' en það vantar kannski smá metnað. Ég vona að ég geti komið inn með metnað, keppnisskap og svona inn í félagið; að við ætlum ekki að vera í fallbaráttu, heldur taka næsta skref."

Er möguleiki á að hún verði lengur ef félagið heldur sér uppi?

„Já, auðvitað. Ég skrifaði undir samning sem er sex mánuðir plús eitt ár. Það er alltaf möguleiki. Það skiptir mig miklu máli að vera í félagi þar sem er mikill metnaður og stígandi. Við þurfum að sjá hvernig þetta gengur."

Miðvörðurinn segir að það hafi ekki komið upp mjög margir möguleikar þegar hún var að taka næsta skref.

„Nei, ekkert rosalega margir. Þetta var frekar erfiður gluggi. Ég er bara sátt að hafa komist inn í þýsku deildina. Síðan sjáum við hvað gerist á næstu mánuðum. Þetta er gott millistökk núna og mikil áskorun. Það er margt sem getur gerst."

Súr endir í Osló
Ingibjörg hafði verið algjör lykilmaður í liði Vålerenga síðustu árin. Á fyrsta tímabili sínu hjá félaginu vann hún bæði deild- og bikar, auk þess sem hún var valin besti leikmaður norsku deildarinnar. Hún vann síðan deildina á síðasta tímabili, en þrátt fyrir magnaða frammistöðu á fjórum árum sínum hjá félaginu var henni ekki boðinn nýr samningur.

„Ég var alveg frekar ósátt en að lokum áttum við gott samtal í desember þar sem þeir útskýrðu stöðuna. Ég hef alveg skilning á því að peningurinn er ekki mikill og það þarf að forgangsraða. Því fylgja erfiðar ákvarðanir. Það var sárt að þetta endaði svona," segir Ingibjörg.

„Þetta er félag sem ég bar mikinn metnað fyrir og það er mikil ást til Vålerenga, en þetta var mjög súr endir og ég er enn eiginlega að jafna mig á því."

„Tilboðið kom að lokum ekki og skýring þeirra var sú að tilboðið sem þeir gátu gefið mér var of lélegt til þess að þeir vildu bjóða mér það. Þannig endaði þetta."

Hún er spennt fyrir komandi tímum í Þýskalandi.

„Að spila á móti Bayern, Wolfsburg, Hoffenheim, Leverkusen... ég vil prófa mig á móti öllum þessum liðum. Þetta er góður gluggi en fyrst og fremst ætla ég að reyna að halda Duisburg uppi. Ég ætla að reyna að halda þessu söguríka félagi í efstu deild, þar sem það á að vera," sagði Ingibjörg að lokum.

Hægt er að sjá viðtalið við Ingibjörgu í spilaranum hér fyrir neðan en Ísland mætir á morgun Serbíu í mikilvægum leik. Sá leikur hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma og er í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Ingibjörg: Erum ekki að fara að vinna 9-1, það er á hreinu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner