Eiður Smári skoraði í báðum leikjunum í eina skiptið sem Ísland hefur unnið tvo útileiki í röð. Mun hann skora í kvöld?
A-landslið Íslands í karlaflokki hefur aðeins einu sinni afrekað það að vinna tvo útileiki í röð í móti. Var það árið 2003 í undankeppni EM en Logi Ólafsson og Ásgeir Sigurvinsson voru þá þjálfarar.
Liðið vann þá fyrst 3-0 sigur gegn Litháen í júnímánuði þar sem Þórður Guðjónsson, Hermann Hreiðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen skoruðu.
Tveimur mánuðum seinna vannst svo sigur gegn Færeyjum í Þórshófn 2-1. Aftur skoraði Eiður Smári í þeim leik en hitt markið gerði Pétur Marteinsson.
Það er vonandi að í kvöld muni Ísland í annað sinn í sögunni ná að vinna tvo mótsleiki í röð á útivelli þegar leikinn verður erfiður leikur gegn Slóveníu. Eins og allir vita vann Ísland 2-1 útisigur gegn Albaníu í október síðastliðnum.
Á undan því hafði Ísland síðast unnið útileik í móti 2006 þegar Norður-Írar voru lagðir 3-0 á Windsor Park.
Leikur Slóveníu og Íslands í kvöld hefst klukkan 17:00 að íslenskum tíma. Slóvenía er númer 56 á heimslistanum en Ísland 92.
Athugasemdir