Argentínski miðjumaðurinn Nico Paz verður áfram hjá ítalska félaginu Como á næstu leiktíð en þetta staðfesti faðir hans í viðtali við ítalska blaðamanninn Gianluca Di Marzio.
Paz kom til Como frá Real Madrid síðasta sumar og hefur verið þeirra langbesti leikmaður á tímabilinu.
Miðjumaðurinn er sonur Pablo Paz, fyrrum landsliðsmanns Argentínu, en hann segir soninn ánægðan hjá Como og sé ekki að hugsa um að fara eftir tímabilið.
„Nico vill vera áfram hjá Como í eitt ár til viðbótar. Honum finnst hann vera að ná í mastersgráðu með því að spila undir Cesc Fabregas. Við gátum valið Fiorentina eða Stuttgart, en okkur leist ótrúlega vel á Como,“ sagði Pablo.
Paz, sem er tvítugur, hefur verið orðaður við Ítalíumeistara Inter, en Pablo segir ekkert til í því.
„Það er ekkert í gangi með Inter. Javier Zanetti er góður vinur minn og vorum við herbergisfélagar í landsliðinu,“ sagði Pablo sem lék alls fjórtán landsleiki með Argentínu.
Sonur hans spilaði fyrsta A-landsleikinn í 6-0 sigri á Bólivíu í október á síðasta ári og lagði upp mark fyrir Lionel Messi, en hann sat allan tímann á bekknum er Argentína vann Úrúgvæ í gær.
Athugasemdir