Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   mið 22. maí 2024 22:05
Ívan Guðjón Baldursson
Xhaka og Andrich hrósuðu Atalanta
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Bayer Leverkusen hefur átt ótrúlegt tímabil og var næstum búið að afreka hið ómögulega - að fara í gegnum heilt tímabil taplaust í öllum keppnum.

Leverkusen var aðeins tveimur leikjum frá því að fara taplaust í gegnum allt tímabilið, en Ademola Lookman og félagar í Atalanta eyðilögðu fyrir þeim í úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fór fram fyrr í kvöld.

Miðjumennirnir Granit Xhaka og Robert Andrich svöruðu spurningum að leikslokum og hrósuðu andstæðingum sínum fyrir vel spilaðan leik.

„Okkur er alveg sama um að vera ósigraðir og okkur hefur verið alveg sama um það frá fyrsta degi. Þetta snýst allt um að sigra fótboltaleiki og því miður þá töpuðum við úrslitaleik í dag, en svona er fótboltinn," sagði Xhaka.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur og við verðum að óska Atalanta til hamingju með sigurinn."

Andrich tók í svipaða strengi. Hann bætti um betur og talaði um að sigurinn hefði verið fyllilega verðskuldaður.

„Það hefði verið betra ef þetta hefði gerst í einhverjum ómerkilegum leik en þannig er ekki raunveruleikinn. Það er mjög erfitt að samþykkja þetta en við verðum að vera heiðarlegir við sjálfa okkur og viðurkenna að þeir áttu þetta skilið," sagði Andrich.

„Við göngum af velli berandi höfuðið hátt og óskum Atalanta til hamingju. Það leikur enginn vafi á því að þeir áttu skilið að sigra þessa viðureign í kvöld."
Athugasemdir
banner
banner
banner