Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   fim 22. ágúst 2013 09:00
Daníel Freyr Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þá er það hafið
Daníel Freyr Jónsson
Daníel Freyr Jónsson
Sir Alex Ferguson kvaddi með titli.
Sir Alex Ferguson kvaddi með titli.
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho er kominn aftur á Brúnna.
Jose Mourinho er kominn aftur á Brúnna.
Mynd: Getty Images
Roberto Soldado er einn af nýjum leikmönnum Tottenham.
Roberto Soldado er einn af nýjum leikmönnum Tottenham.
Mynd: Getty Images
Swansea gekk vel í fyrra.
Swansea gekk vel í fyrra.
Mynd: Getty Images
Paolo Di Canio er skrautlegur á hliðarlínunni.
Paolo Di Canio er skrautlegur á hliðarlínunni.
Mynd: Getty Images
Aron Einar Gunnarsson er mættur í ensku úrvalsdeildina með Cardiff.
Aron Einar Gunnarsson er mættur í ensku úrvalsdeildina með Cardiff.
Mynd: Getty Images
Ég leyfi mér að fullyrða það að enska úrvalsdeildin hafi aldrei nokkurn tímann litið jafn spennandi út í upphafi leiktíðar. Öll þrjú efstu liðin á síðustu leiktíð hafa nýja menn á hliðarlínunni. Goðsagnir hafa horfið á braut og goðsagnir hafa snúið til baka á síðustu mánuðum. Gríðarlegum fjármunum hefur verið varið í nýja leikmenn og líklega hafa aldrei jafn mörg lið getað talið sig eiga möguleika á titlinum í upphafi leiktíðar. Það stefnir því eitt mest spennandi tímabil af þeim 22 sem leikin hafa verið í þessari skemmtilegustu deild í heimi.

Óhætt er að leggja pening undir á að öll af þeim fimm efstu frá því í fyrra verði meistari. Ekkert eitt val er vitlausara en annað. Englandsmeistarar Manchester United, Manchester City, Chelsea, Arsenal og Tottenham eiga öll raunhæfa möguleika á að vinna titilinn. Ég skal þó játa að líklega er Arsenal stærsta spurningamerkið af þessum fimm liðum miðað við fyrsta leik liðsins á þessari leiktíð, en ég hef trú á að Wenger klófesti réttu leikmennina fyrir mánaðamótin. Þá skiptir það Tottenham miklu máli að halda Gareth Bale. Með þá frábæru leikmenn sem Tottenham hefur keypt í sumar er liðið til alls líklegir ef Bale verður áfram. Um möguleika United, City og Chelsea þarf vart að rita, enda öll lið í hæsta klassa þó að nýjir stjórar séu í brúnni.

Og þessir stjórar eru reyndar bæði nýjir og gamlir. Það fór náttúrulega ekki fram hjá neinum manni, hvort sem hann hafi nokkurt vit á fótbolta eða ekki, að skoskur maður búsettur í Manchester hætti loks í vinnunni í maí. Já, Sir Alex Ferguson hætti og kvaddi með titli - sex árum eftir að lögin sögðu að hann mætti hætta og þiggja ellilífeyri. Inn kom David Moyes og hefur Manchester United farið vel af stað undir hans stjórn. Annað má þó segja um frammistöðu félagsins á leikmannamarkaðinum í sumar án þess að fara út í það frekar, enda hefur ekkert gerst þar til að ræða um.

Þá var umgjörðin í kringum brottför Roberto Mancini frá Manchester City eins mikil andstæða við það sem Ferguson fékk að upplifa eins og gæti gerst. Ítalinn fékk ekki að klára síðasta tímabil og daginn sem hann var rekinn var slétt ár frá því City hafði tryggt sér Englandsmeistaratitilinn. Manuel Pellegrini er hinsvegar tekinn við og verður tímabilið afar spennandi á Etihad-vellinum. Fjórir frábærir leikmenn hafa komið á meðan aðrir fóru af launaskránni. Breiddin var eitthvað sem vantaði hjá City í fyrra, en ekki verður það sama upp á teningunum í ár.

Á Brúnni var snemma sumars afhjúpað verst geymda leyndarmál knattspyrnuheimsins þegar endurkoma Jose Mourinho var staðfest. Mourinho rauk út frá Chelsea í fússi fyrir sex árum, en þetta samband þarna á milli er eitthvað sérstakt. Hann er kominn aftur og ætlar sér að vera lengi í þetta sinn, eða allavega á meðan honum tekst að vinna titla. Eden Hazard, Oscar og félagar munu sjá til þess að stuðningsmenn þeirra bláu bíða spenntir eftir hverjum einasta leik.

Mistakist einhverju af þessum fimm liðum, sem ég talaði um hér að ofan, að enda í efstu sætunum er afar líklegt að Liverpool hirði það sæti sem gefst. Daniel Sturridge og Coutinho virka frábærir saman fram á við og ekki versnar staðan ef Luis Suarez verður áfram á Anfield líkt og allt bendir til. Þá er Simon Mignolet kominn í markið í stað Pepe Reina, sem var afar misjafn á síðustu árum.

En deildin snýst ekki bara um þessi efstu lið. Það eru önnur lið sem verður afar fróðlegt og spennandi að sjá í vetur. Sérstaklega verður gaman að fylgjast með Michael Laudrup og hans léttleikandi liði Swansea. Gengi þeirra í fyrra var magnað og þeirra besti maður þá, Michu, þarf að forðast hið fræga second season syndrome. En til að hafa varann á sér þá splæsti Laudrup í markahæsta leikmann Hollands, Wilfried Bony. Walesverjarnir verða því líklega í baráttunni í efri hluta deildarinnar.

Ásamt Swansea er pláss fyrir önnur lið á efri hluta töflunar. Everton er eitt af þeim liðum sem gæti endað þar, en þeim vegnaði yfirleitt vel undir stjórn Moyes á síðustu árum. Roberto Martinez tók við af honum í sumar og þrátt fyrir jafntefli í fyrsta leik lofaði frammistaðan góðu. Þá verður gaman að sjá hvernig Dimitar Berbatov og Darren Bent virka sem framherjapar hjá Fulham, enda báðir mjög flottir leikmenn. Fulham endaði í 12. sæti í fyrra og gæti vel farið upp um nokkur sæti í ár.

Hið unga lið Aston Villa gæti komið á óvart. Síðasta tímabil gekk brösulega, en nú eru þeir ári eldri og reynslunni ríkari. Einnig hafa þeir einn besta framherja deildarinnar í sínum röðum. Sá heitir Christian Benteke og var það líklega mikilvægasta undirskrift allra liða deildarinnar í sumar þegar hann framlengdi við félagið. Southampton lofar einnig góðu með sín kaup í sumar - Dejan Lovren, Victor Wamyana og Pablo Osvaldo. Síðan hefur Norwich fengið spennandi leikmenn til sín og gætu vel endaði í efri hlutanum.

En önnur munu eiga í erfiðleikum. Liðin úr norðrinu, Newcastle og Sunderland, munu hugsanlega verða í þeim flokki. Hópurinn hjá Newcastle er ágætlega sterkur, en þetta hefur ekki verið að smella undanfarið árið. Hugsanlegt brotthvarf Yohan Cabaye gerir bara illt verra fyrir Alan Pardew. Og þó að Paolo Di Canio hafi keypt heilan her af leikmönnum í sumar, þá hef ég einhvernveginn litla trú á að Sunderland muni vegna vel. En það væri samt mjög gaman ef að sú spá bregst og eiginkona hans þarf að setja bætur í hnén á jakkafatabuxunum hans reglulga.

WBA án Romelu Lukaku er stórt spurningamerki og sama má segja um Stoke City undir stjórn Mark Hughes. Fáir nýjir leikmenn hafa komið inn frá tíð Tony Pulis. Þetta verður líka erfitt tímabili fyrir alla nýliðana- Hull, Cardiff og Crystal Palace. Sem Íslendingur vonar maður þó ávallt það besta fyrir sína menn og má Cardiff því alveg koma verulega á óvart í vetur.

Þannig það er svo margt sem verður gaman að fylgjast með í vetur... Toppbaráttan. Botnbaráttan. Nýir menn eins og Stevan Jovetic, Roberto Soldado og Wilfried Zaha. Marklínutæknin. Gylfi og Aron.

Hvernig geta ekki allir elskað þessa deild?
Athugasemdir
banner
banner